Innlent

Inga segir landið að sökkva í sæ vargaldar

Jakob Bjarnar skrifar
Inga Sæland sagði hér allt á hverfanda hveli, vargöld ríkir og ekki er reynt að ráðast gegn rót vandans. Flokkur fólksins stendur hins vegar vaktiina.
Inga Sæland sagði hér allt á hverfanda hveli, vargöld ríkir og ekki er reynt að ráðast gegn rót vandans. Flokkur fólksins stendur hins vegar vaktiina. vísir/vilhelm

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, boðaði nýja tíma í ræðustól Alþingis undir dagskrárliðnum Störf þingsins.

Margir þingmenn stigu í ræðustól og kvörtuðu undan mansali sem var til umfjöllunar á Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi en Inga víkkaðu umræðuna svo um munaði.

„Hér ríkir vargöld þegar kemur að skipulagðri glæpastarfsemi,“ sagði formaðurinn. Og vildi meina að allt væri þetta í boði ríkisstjórnarinnar. 

Þessi mál liggja greinilega þungt á Ingu sem lét í sér heyra, heldur betur:

„Sjálfstæðisflokkurinn segir landið land tækifæranna og Framsókn segir þetta allt að koma!“

En hvað er að koma? Inga nefndi ýmis dæmi:

„Innbrot í Elko þar sem kostnaðurinn væri tugir milljóna. Við höfum aldrei séð annað eins af morðum í sögu landsins, við höfum aldrei heyrt annað eins mansal og óhugnað og það sem við erum að takast á við núna. Níu, tíu, ellefu glæpahópar og mafía sem allir vita af. Það er ekki tekið á málunum og lögreglan hefur ekki mannafla til að ráðast gegn rót vandans.“

Og í því er komið að Flokki fólksins sem Inga sagði að stæði vaktina.

„Við í Flokki fólksins skulum sko ráðast að vandanum. Við kærum okkur ekki um að fallega landið sökkvi í sæ í boði ríkisstjórnarinnar. Það er kominn tími til breytinga og þær breytingar er ég að boða nú.“

Umræða er nú á Alþingi um hin ýmsu mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×