Í Samtalinu hjá Heimi Má í dag sagði Sigmundur Davíð Miðflokkinn nú uppskera af stefnufesti sinni, meðal annars í útlendingamálum. Flokkurinn væri með svipaða stefnu og danskir jafnaðarmenn, um að allir sem birtust á landamærunum og sæktu um hæli hér á landi ættu að fá synjun og missa réttinn til hælisleitar.
„Mette Fredriksen forsætisráðherra Danmerkur sagði að markmiðið væri að enginn mætti til landsins. Enginn kæmi til að sækja þar um hæli. Menn myndu taka við fólki, flóttamönnum, annars staðar frá, ef þeir sæktu um annars staðar. En ef þeir kæmu til landsins og ætluðu að sækja um þar þá væri þeim vísað burtu,“ sagði formaður Miðflokksins.
Þá líst honum ekki á þá stefnu sem stjórnvöld reka í dag varðandi þann mikla fjölda útlendinga sem hér vinna.
„Nú eru stjórnvöld farin að tala um inngildingu sem er eitthvað nýyrði og andstaða aðlögunar. Af því að inngilding á að tákna það að við eigum að aðlaga okkur að öðrum. Þannig getur þú ekki rekið samfélag,” sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Hér fyrir neðan má sjá Samtalið í heild sinni.