Í þættinum Flugþjóðin á Stöð 2, sem ber yfirskriftina Fólkið í fluginu, er rætt við fjölda núverandi og fyrrverandi starfsmanna úr fluggeiranum sem segja okkur nokkrar mergjaðar flugsögur.
Stefán Jónsson, fyrrverandi flugvélstjóri, lýsir þeim ótrúlega atburði þegar jólatré festist á stéli Flugfélagsvélar í flugi yfir Grænlandi.

Erla Hafrún Guðjónsdóttir, fyrrverandi flugfreyja, segir frá magalendingu á CL-44 Rolls Royce-vél Loftleiða, Bjarna Herjólfssyni, í New York vorið 1970 þegar annað hjólastellið festist ekki niðri. Tvöhundruð manns voru um borð, 189 farþegar og ellefu manna áhöfn.

„Svo var bara sett kvoða á brautina og undirbúið,“ segir Erla Hafrún.
Í þættinum eru sýndar ljósmyndir sem Erla tók af flugvélinni eftir magalendinguna á Kennedy-flugvelli en þær hafa ekki áður birst opinberlega. Þær sýna vel skemmdir á flugvélinni og hversu giftusamlega tókst til að engin alvarleg meiðsl urðu á fólki.

„Ég eiginlega brotnaði ekki fyrr en ég kom heim og hitti manninn minn og son minn,“ rifjar Erla upp.
Við heyrum einnig flugfreyjurnar segja frá atvikinu þegar þær lentu í loftgati í aðflugi að Keflavík. Svo skyndilega féll flugvélin niður að ein flugfreyjan hentist harkalega upp og braut skilti í loftinu.

Gunnar Guðjónsson, fyrrverandi flugstjóri, segir skondna sögu úr flugferð frá Glasgow með samgönguráðherrann Halldór E . Sigurðsson um borð. Sammælst hafði verið um það að ráðherrann fengi að kíkja frammí til flugmannanna á leiðinni. Þá vildi svo óheppilega vildi til að viskípeli brotnaði óvart inni í flugstjórnarklefanum einmitt þegar ráðherrann mætti.

Gylfi Magnússon, fyrrverandi flugstjóri, segir frá ævintýraferðalagi sem dúkkaði upp með litlum fyrirvara þegar milljarðamæring vantaði flugmenn á þotuna sína, Boeing 727. Hann og Stefán Jónsson tóku að sér verkefnið sem teygðist upp í sex vikur og fór um Austurlönd fjær og Ástralíu.
Hér má sjá níu mínútna myndskeið af flugsögum:
Í þættinum rýnum við einnig í flugáhugann á Íslandi og spyrjum hversvegna Íslendingar urðu flugþjóð.
Hér má sjá sjö mínútna myndskeið þar sem þessu er velt upp:
Þátturinn verður endursýndur á Stöð 2 í dag, sunnudag, klukkan 16:55. Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta horft á alla þáttaröðina hvar og hvenær sem er í streymisveitu Stöðvar 2.
Hér er kynningarstikla þáttaraðarinnar: