Benóný Breki Andrésson skoraði fimm mörk þegar KR valtaði yfir HK, 7-0. Hann skoraði 21 mark í sumar en enginn leikmaður hefur skorað fleiri mörk á einu tímabili í efstu deild.
Jóhannes Kristinn Bjarnason og Alex Þór Hauksson voru einnig á skotskónum fyrir KR sem felldi HK með sigrinum. KR-ingar unnu síðustu fjóra leiki sína á tímabilinu með markatölunni 19-1.
Fylkir kvaddi Bestu deildina með 1-3 sigri á Vestra á Ísafirði. Þrátt fyrir tapið héldu Vestramenn sér uppi.
Fatai Gbadamosi kom Vestra yfir í fyrri hálfleik en Halldór Jón Sigurður Þórðarson, Matthias Præst Nielsen og Theodór Ingi Óskarsson (víti) svöruðu fyrir Fylki í seinni hálfleik.
KA gerði góða ferð í bæinn og vann 1-4 sigur á Fram á Lambhagavellinum. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvö mörk fyrir bikarmeistarana og Ásgeir Sigurgeirsson og Rodrigo Gomes Mateo sitt markið hvor. Tryggvi Snær Geirsson skoraði mark Framara sem töpuðu síðustu fjórum leikjum sínum á tímabilinu.
Valur tryggði sér Evrópusæti með því að kjöldraga ÍA, 6-1, á heimavelli, í kveðjuleik Birkis Más Sævarssonar fyrir Valsmenn.
Sigurður Egill Lárusson, Patrick Pedersen, Tryggvi Hrafn Haraldsson, Albin Skoglund, Gylfi Þór Sigurðsson og Lúkas Logi Heimisson skoruðu mörk Vals.
Þá vann Stjarnan 3-2 sigur á FH í Garðabænum. Hilmar Árni Halldórsson skoraði í sínum síðasta leik á ferlinum og Emil Atlason og Baldur Kári Helgason (sjálfsmark) skoruðu einnig fyrir Stjörnumenn. Sigurður Bjartur Hallsson og Kjartan Kári Halldórsson skoruðu mörk FH-inga sem fengu aðeins eitt stig í úrslitakeppninni.
Mörkin úr leikjunum fimm má sjá hér fyrir ofan.