„Félagsfólk Kennarasambands Íslands í leik-, grunn- og tónlistarskólum hefur verið samningslaust í fimm mánuði og félagsfólk í framhaldsskólum í sjö mánuði. Verkföll hófust víða um land í lok október og ná þau til allra skólastiga og skólagerða með tilheyrandi áhrifum á þúsundir einstaklinga. Kennarasambandi Íslands blöskrar afstaða viðsemjenda sinna í kjaradeilunni og tekur eindregið undir áhyggjur foreldra og nemenda af stöðu mála,“ segir í ályktun fundarins.

Þar segir svo að haustið 2016 hafi verið gert samkomulag milli opinberra launagreiðenda og bandalaga stéttarfélaga um breytingar á skipan lífeyrismála. Ári síðar höfðu lífeyrisréttindi launþega á almennum og opinberum vinnumarkaði verið jöfnuð.
Alger samstaða
Sama samkomulag kveði á um jöfnun launa á milli markaða og að sú jöfnun hafi átt að taka sex til tíu ár. Samstarfi um útfærslu jöfnunar launa hafi ekki borið árangur og því hafi aðildarfélög Kennarasambandsins sammælst um það markmið að kjarasamningar allra aðildarfélaga feli í sér skuldbindingu viðsemjenda um hvernig verður staðið við samkomulagið um jöfnun launa á næstu árum.
„ Átta ár eru langur tími. Kennarar krefjast sambærilegra launa og aðrir háskólamenntaðir sérfræðingar á atvinnumarkaði. Ómálefnalegur launamunur milli markaða hefur haft alvarlegar afleiðingar á íslenskt skólakerfi. Það sárvantar kennara. Löngu er orðið tímabært að bregðast við stöðunni með því að jafna launin og fjárfesta þannig í skólakerfinu og framtíðinni um leið,“ segir í ályktuninni.

Þá segir að lokum að aðildarfélög sambandsins hafi aldrei staðið eins þétt saman. Það sé alger samstaða um verkefnið og félagsfólk tilbúið í langvinna baráttu.
„Þær kröfur eru ekki aðeins réttlátar og eðlilegar heldur hvílir allur okkar lýðræðislegi grunnur á því að stjórnvöld standi við gerða samninga.“