Ríkisstjórnin bjó sjálf til flóttamannavandamál Heimir Már Pétursson skrifar 9. nóvember 2024 08:02 Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata segir stefnu hreyfingarinnar byggja á ákveðinni aðferðafræði og gildum um stoðir lýðræðisins. Réttindum fólks verði aldrei fórnað fyrir valdastóla. Vísir/Rax Þingflokksformaður Pírata telur að boða ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst um hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram. Ríkisstjórnin hafi með ósanngirni búið til flóttamannavandamál úr hælisleitendum frá Venesúela sem hún hafi fyrst boðið til landsins og svo ákveðið að reka á brott með ærnum tilkostnaði. Píratar stefni að því að komast í ríkisstjórn að loknum kosningum. Það eru ellefu ár frá því Píratar buðu fyrst fram til Alþingis árið 2013 og þeir hafa allan þann tíma verið í stjórnarandstöðu. Hreyfingin var næst því að komast í ríkisstjórn eftir að skammlíf ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk haustið 2017. Eftir stuttar þreifingar Vinstri grænna, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata varð hins vegar úr að Katrín Jakobsdóttir myndaði ríkisstjórn Vinstri grænna með Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Sjö árum síðar segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata hreyfinguna reiðubúna til stjórnarsamstarfs. Hún hefur setið á þingi fyrir hreyfinguna allt frá alþingiskosningunum 2016 og hefur látið sig mannréttindamál hér á landi og að heiman varða. Þórhildur Sunna er með meistaragráðu frá hollenskum háskóla í mannréttindum og alþjóðlegum refsirétti og hefur verið einn fulltrúa Íslands í íslandsdeild Evrópuráðsþingsins frá 2017. Nú þegar einungis rúmar þrjár vikur eru til kosninga er á brattann að sækja fyrir Pírata. Í könnun Maskínu frá því á fimmtudag mælist flokkurinn aðeins með 4,9 prósenta fylgi og gæti því fallið af þingi. Vísbendingar eru hins vegar um að hreyfingin nái inn manni í Suðvesturkjördæmi þar sem Þórhildur Sunna er í oddvitasæti. Leyfi mér ekki að vera hrædd Þórhildur Sunna segist bjartsýn um úrslit komandi kosninga þrátt fyrir lítið fylgi Pírata í skoðanakönnunum að undanförnu.Vísir/Rax „Ég ætla ekki að leyfa mér að vera hrædd og er bara bjartsýn og brött fyrir þessar kosningar. Held að við rúllum inn á þing, segir Þórhildur Sunna. Fylgi Pírata aukist lítillega milli vikna og hún voni að staðan batni nú þegar kosningabaráttan væri komin á fullt. „Við Píratar höfum í töluverðan tíma stefnt á setu í ríkisstjórn. Eins og þú segir, við höfum verið í stjórnarandstöðu allan þennan tíma og lært gríðarlega mikið af því. Og líka séð að til þess að ná árangri, sem við höfum sannarlega náð í stjórnarandstöðu, að til þess að geta haft þessi stóru áhrif til breytinga sem við viljum hafa, þurfum við komast í ríkisstjórn til að fylgja því eftir,“ segir Þórhildur Sunna. Það er ekki nýtt að Píratar eigi á brattann að sækja í könnunum fyrir kosningar og þá sérstaklega í landsbyggðarkjördæmunum. Þórhildur Sunna segir flokkinn hafa mjög frambærilega og flotta byggðastefnu. „Við erum með umhverfisstefnu þar sem einnig er mikið hugað að byggðum landsins. Við tölum fyrir því að efla samgöngur og innviði á landsbyggðinni. Við höfum lagst á sveif með þeim sem til dæmis ekki vilja sjá sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Erum með margt sem ég tel að bjóði upp á sterkari stöðu á landsbyggðinni.“ Flokkurinn hafi flotta oddvita sem hafi sterk tengsl við sín kjördæmi. Hún vonist því til að flokkurinn fái betri útkomu í öllum kjördæmum. „Við höfum séð aukinn stuðning í Norðvesturkjördæmi í sumum könnunum. Höfum alltaf átt svolítið á brattann að sækja í Norðausturkjördæmi en það hefur gerst að Píratar hafi fengið kjörinn í þingmann í hverju einasta kjördæmi landsins. Það er ekkert sem segir að við getum ekki gert það aftur.“ Eini flokkurinn með prófkjör um allt land Fljótt á litið er hins vegar ekki hægt að tala um mjög mikla endurnýjun á listum Pírata á höfuðborgarsvæðinu. Eru núverandi þingmenn ómissandi í sveit Pírata? „Við vorum eini flokkurinn á landinu sem fór í prófkjör. Félagsmennirnir okkar ákváðu hvernig listunum skyldi stillt upp. Við erum með mjög frambærilegan nýjan oddvita í Reykjavík, Lenyu Rún Taha Karim. Björn Leví (Gunnarsson) heldur sínu sæti sem annar oddvitanna í Reykjavík og ég mínu í Suðvesturkjördæmi. Svo erum við með nýja oddvita í öllum landsbyggðarkjördæmunum. Ég myndi telja það mikla endurnýjun,” segir Þorgerður Sunna. Að auki væru Píratar með nýtt fólk í sætum sem alla jafna gætu talist þingsæti og hún telji að geti látið vel til sín taka. Hún nefnir sérstaklega Derek Terell Allen og Dóru Björt Guðjónsdóttur borgarfulltrúa sem nú reyni fyrir sér í landsmálunum. Það væri mikill fengur af þeim. Ekki í stjórn með Sjálfstæðisflokki og sennilega ekki Miðflokki Píratar hafa lýst því yfir fyrir undanfarnar kosningar að flokkurinn muni ekki fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Þórhildur Sunna segir það einnig eiga við núna. Hvers vegna? „Við höfum einfaldlega lýst þeirri skoðun okkar að almenningur væri upplýstur um að atkvæði greitt okkur þýðir ekki atkvæði greitt ríkisstjórn með samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Okkur finnst mjög mikilvægt að vera mjög opin og gagnsæ með það.” Getið þið starfað með öllum hinum flokkunum sem núna eru á Alþingi? „Við höfum bent á að það er ýmislegt sem skilur okkur og Miðflokkinn að þegar kemur að grundvallar hugmyndafræði um hvað er rétt og rangt í samfélaginu. Þau afneita loftslagsbreytingum, þau tala á móti réttindum fólks byggt á kynvitund og annað. Ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér að það myndi ganga upp.“ Píratar gætu hins vegar fundið samstarfsflöt með öðrum flokkum á þingi. Einnig með Sósíalistaflokknum sem væri með nákvæmlega sömu stefnu og Píratar í mörgum málum. Margir tala um að erfitt sé að ná utan um hvað Píratar standa. Hver er grunnstefna Pírata? „Einmit. Það er eitthvað sem okkur hefur verið legið á hálsi með; að vera ekki nógu skýr með fyrir hvað við stöndum og að fólk átti sig ekki nægjanlega á okkur. Það er kannski vegna þess að við viljum ekki skilgreina okkur á þessum hægri-vinstri ás. Þar sem við horfum stundum til lausna sem eru hefðbundið hægri og stundum hefðbundið vinstri,“ segir þingflokksformaðurinn. Píratar byggja á aðferðafræði og gildismati Grunnstefna Pírata væri ákveðin aðferðafræði og gildismat sem þar lægi að baki. „Hún snýr að því að taka upplýstar ákvarðanir, byggðar á gögnum. Byggðar á ríku lýðræðislegu samráði. Við leggjum gríðarlega mikla áherslu á lýðræðið og allar stoðirnar sem fylgja lýðræðinu. Öruggar kosningar, öflugt réttarríki, ríkt samráð við almenning. Meiri aðkomu almennings en ákvarðanataka á fjögurra ára fresti.“ Þórhildur Sunna segir almenning eiga rétt á vita hvað stjórnvöld aðhafast hverju sinnni.Vísir/Rax Þessi hugmyndafræði og lýðræðisleg sjónarmið væru leiðarljós Pírata í þeirra vinnu. Að nálgast hlutina á lýðræðislegum forsendum og viðhafa gagnsæi í ákvarðanatöku. Tryggja aðgengi að upplýsingum þannig að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir. „Fólk viti hvað stjórnvöld eru að gera. Þurfi ekki að treysta í blindni. Fjölmiðlar hafi aðgang að þessum upplýsingum og geti upplýst almenning og að við séum opin fyrir hugmyndum sama hvaðan þær koma. Þú nefnir hvort við viljum fara í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Við höfum ekki verið tilbúin til þess en hins vegar verið reiðubúin að vinna með Sjálfstæðisflokknum að halda áfram með góðar hugmyndir. Vinna með þeim að góðum málum, þótt við værum ekki tilbúin að kvitta upp á ríkisstjórnarsáttmála með þeim,“ segir Þórhildur Sunna. Þannig væru Píratar reiðubúnir að skoða góðar hungmyndir sama hvaðan þær kæmu. Tilbúnir til að endurskoða afstöðu sína ef í ljós kæmi að ákvarðanir hafi verið byggðar á úreltum gögnum eða á röngum forsendum. Hafa sannað sig í meirihluta borgarstjórnar Gæti þetta reynst ykkur fjötur um fót. Þyrftu Píratar í ríkisstjórn að bera allar meiriháttar ákvarðanir undir atkvæði í hreyfingunni í heild? „Nei og ég held að samstarf okkar í borginni hafi sýnt að Píratar eru vel til þess fallnir að vera í meirihlutasamstarfi. Við erum búin að vera kjölfestan í meirihlutasamstarfi í Reykjavík, milli Samfylkingar, Pírata og nokkurra annarra flokka sem hafa aðeins róterast í tíu ár. Þar eru ekki atkvæðagreiðslur vikulega innan Pírata hvort fara eigi leið A eða B í að ná fram ákveðnum markmiðum,” segir Þórhildur Sunna. Fulltrúar flokksins hefðu umboð félagsmanna rétt eins og fulltrúar annarra stjórnmálahreyfinga til að búa til stjórnarsáttmála og fylgja honum eftir. „Auðvitað eins og hjá öðrum hreyfingum fer stjórnarsáttmáli í atkvæðagreiðslu hjá okkar félagsmönnum þegar hann liggur fyrir. Það er aðkoma grasrótarinnar. Svo erum við auðvitað í virku samráði og samtali. En þetta sem oft hefur verið málað upp; leikurinn sem fólk óttast kannski að endurtaki sig þegar Björt framtíð heldur næturfund þar sem ákveðið er í atkvæðagreiðslu að slíta ríkisstjórn. Þetta er ekki eitthvað sem getur gerst hjá Pírötum.“ Uppbygging flokksins væri ekki með þeim hætti. Það væru þingmenn sem færu með stjórnarmyndunarumboðið og bæru ábyrgð gagnvart samstarfsflokkum og færu vel með það. „Við myndum ekki rjúka til með atkvæðagreiðslur um allt mögulegt,“ segir Þórhildur Sunna. Hvað var það þá sem fældi Framsóknarflokkinn frá samstarfi við Pírata árið 2017 þegar Framsóknarflokkurinn treysti sér ekki til samstarfs við Pírata einhverra hluta vegna? „Þeir vildu ekki upplýsa hvað það var sem þeir treystu okkur ekki fyrir á þeim tímapunkti. En það er margt vatn búið að renna til sjávar síðan þá og Framsóknarflokkurinn hefur gengið inn í samstarf við Pírata í borginni. Hefur upplifað hvernig er að vinna með okkur þar. Þannig að ég held að það sé auðveldara að spyrja Framsókn að því hvað það er við okkur sem þau treysta ekki alveg,” segir þingflokksformaður Pírata. Mögukega hafi mýtan um að Píratar búi við óstöðugt stjórnarfar haft áhrif. Að ekki væri hægt að treysta því að Píratar væru samstarfsfúsir og lausnarmiðaðir. Mikilvæg grundvallaratriði Kannski of prinsippföst ef upp kæmu óvænt og umdeild mál? Píratar eiga erfitt með að líða sjálftöku og spillingu að sögn Þórhildar Sunnu og krefjast þess að fólk taki ábyrgð á gerðum sínum.Vísir/Rax „Mér finnst mikilvægt um hvaða prinsipp við erum að tala og við erum ekki tilbúin að víkja frá. Það eru grundvallar mannréttindi borgaranna, að við búum í réttarríki þar sem réttindi borgara eru tryggð. Þar sem ekki er beinlínis brotið á réttindum fólks með lagasetningu eða aðgerðum stjórnvalda. Fólk sé varið fyrir valdníðslu. Þetta er eitthvað sem við erum ekki tilbúin að nota sem einhvers konar pólitíska skiptimynt,“ segir Þórhildur Sunna. Píratar væru til dæmis ekki tilbúnir til að selja réttindi jaðarsettra hópa til að halda einhverjum stólum. Þetta snúist um vandaða lagasetningu og farið væri betur í gegnum stjórnarfrumvörp en gert hafi verið hingað til. „Hitt er að við eigum erfitt með að líða sjálftöku og spillingu. Ef það koma upp alvarleg spillingarmál höfum við gefið það út að okkur finnst mikilvægt að fólk gangi hreint fram. Það gangist við sinni ábyrgð ef hún er til staðar og farið verði ofan í saumana á málum sem vekja upp spurningar hvort um hafi verið að ræða sjálftöku eða spillingu.“ Það þýði ekki að ef upp vakni spurningar ætli Píratar að hlaupast undan merkjum og gefast upp. „En við krefjumst þess af fólki sem vinnur með okkur og af okkur sjálfum að við stundum gagnsæ vinnubrögð og við séum tibúin að fara ofan í kjölinn á umdeildum málum.“ Erfiðar innanbúðadeilur Það varpaði nokkrum skugga á áru Pírata þegar upp komu deilur innan Pírata um kjör í framkvæmdastjórn hreyfingarinnar. Þegar Atli Þór Fanndal starfsmaður þingflokksins gengur fram, að manni skilst á fréttum, og smalar á fund til að kjósa í framkvæmdastjórn. Hann er síðan látinn fara og umboði varamanna í framkvæmdastjórn er breytt þannig að þeir hafi sama umboð og varamenn. Hvað var eiginlega á ferðinni hjá Pírötum og var þingflokkurinn að setja puttana í eitthvað sem hann átti kannski ekki að gera? Þórhildur Sunna segir deilurnar um hvernig staðið var að kjöri í framkvæmdastjórn hreyfingarinnar hafi verið erfiðar. Nú ríkti hins vegar jakvæðni og sátt í kosningabaráttunni.Vísir/Rax „Það sem gerðist er að Píratar boða til aðalfundar þar sem kosin er ný framkvæmdastjórn. Þú nefnir smölun, ég gæti nefnt ákveðinn trúnaðarbrest sem varð því miður gagnvart okkur í þingflokknum að hálfu Atla Þórs. Úr varð að hann lætur af störfum hjá okkur,“ segir Þórhildur Sunna. Ýmsu hafi verið haldið fram um þetta mál. „Það sem gerist er að nýtt fólk er kjörið í framkvæmdastjórn og ég vil fá að halda því til haga að ég var mjög ánægð með þessa nýju framkvæmdastjórn. Mjög glöð að fá þennan nýja styrk inn í hreyfinguna okkar. En það voru ákveðnar áhyggjur upp um hvernig þetta kjör hefði farið fram. Það voru deilur sem ég held að okkur hafi tekist að leysa ágætlega.“ Það væri hins vegar kannski erfitt að segja núna hvort framkvæma hefði átt hlutina svona eða hinsegin. Hreyfingin hefði átt að bregðast svona eða hinsegin við eða ekki. „Ég held að það fylgi oft öllum kosningum inni í stjórnmálahreyfingum einhvers konar ósætti eða uppnám.“ Ekki brot á persónuverndarlögum að skoða óumbeðin gögn Þið viljið vera opinská með alla hluti og það komu fram ásakanir um að þingflokkurinn hafi verið að lesa yfir einhvern spjallþráð sem hann ætti ekki að vera að lesa yfir og svo framvegis? „Já, það komu fram ásakanir um að við hefðum gerst brotleg við persónuverndarlög. Talandi um gagnsæi. Við fengum send skjáskot sem við báðum ekki um. Það er það sem okkur hefur verið legið á hálsi að skoða.“ Hún geti ekki tekið undir að það sé brot á persónuverndarlögum að fá upplýsingar sem ekki hafi verið óskað eftir. „Að þessu sögðu finnst mér ótrúlega leiðinlegt hvernig þetta fór. Einnig gagnvart Atla Þór sem er augljóslega mjög sár út í okkur eftir þennan aðskilnað. Mér finnst það mjög leiðinlegt. Við vorum vinir og ég vildi að þetta myndi ganga vel hjá okkur og var mjög bjartsýn á það.“ Þetta hafi verið tímabundin ráðning sem því miður hafi ekki gengið upp. „Þetta var smá stund þar sem fólk var ósátt og hissa á niðurstöðum kosninganna. Það var ósátt við afskipti samskiptastjóra þingflokks Pírata af því hvernig þessar kosningar fóru. Þingflokkurinn átti í samtali við fólk innan hreyfingarinnar um hvað við gætum gert til að ná saman. En við vorum ekki í einhverju uppnámi yfir því hvernig þetta fór. Við vildum reyna að sætta sjónarmið, sagði Þórhildur Sunna í Samtalinu á fimmtudag. Mér finnst ótrúlega leiðinlegt hvernig þetta fór. Að Atli Þór gangi ósáttur frá borði en ég hafna því að við höfum brotið persónuverndarlög með því að taka við upplýsingum sem okkur voru sendar. Ég get heldur ekki tjáð mig um hver gerði það,“ segir Þórhildur Sunna. Það væri erfitt að ræða þessi mál þar sem þau væri starfsmannamál og þar giltu ákveðin lög og reglur. „Niðurstaðan er, og ég held að það sé mikilvægt að við höldum okkur við niðurstöðuna, að það er sátt innan framkvæmdastjórnar. Það er ánægja og bjartsýni fyrir þessa kosningabaráttu. Þetta var vissulega erfitt mál fyrir okkur á þessum tíma en við erum alveg búin að greiða úr því innan okkar raða,“ segir þingflokksformaðurinn. Vill hefja aðildarviðræður við ESB sem fyrst Atkvæðagreiðslu um kosningastefnuskrá Pírata lauk á fimmtudagskvöld og þar kennir ýmissra grasa. Meðal annars að Píratar vilji að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um að hefja á ný aðildarviðræður við Evrópusambandið. Píratar eru því á svipuðum slóðum með það mál og Viðreisn. Hvers vegna er það góð hugmynd á þessum tímapunkti? „Þetta er reyndar búið að vera stefna Pírata eins lengi og ég man, að við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður. Þetta er eitthvað sem þjóðinni hefur verið lofað í rúm tíu ár og ekki verið staðið við,“ segir Þórhildur Sunna. Píratar treystu þjóðinni til að taka rétta ákvörðun fyrir hagsmuni Íslands. „Mér finnst það sérstaklega tímabært núna eftir að Donald Trump ber sigur úr býtum í bandarísku forsetakosningunum. Vegna yfirlýstrar stefnu hans gagnvart bæði NATO og Úkraínu. Gagnvart tollum og viðskiptum við helstu viðskiptaríki. Að þá sé mikilvægt fyrir okkur að halla okkur nær þeim ríkjum sem deila með okkur grundvallar hugmyndum um lýðræði, réttarríki, mannréttindi, réttindi jaðarsettra hópa.“ Þetta væri enn í gildi víðs vegar um Evrópu og Ísland ætti að vinna að nánara sambandi við ríki sem deildu þessum grunnhugmyndum. Þannig að það er ekki svo mikið gjaldmiðillinn og efnahagsmálin? „Það er líka gjaldmiðillinn, efnahagsmálin og samkeppnisumhverfið. Aðgengi fólks að samkeppnishæfu lánsfé, húsnæðismarkaði og öllu því sem þetta getur vel boðið upp á. En það er lengri tíma sýn. Þetta tekur allt sinn tíma.“ Þórhildur Sunna telur mögulegt að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið jafnvel strax á næsta ári.Vísir/Rax Fyrst þurfi að ná saman um markmiðið að Ísland halli sér meira að Evrópu en hingað til. „Þá værum við kannski að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta ári eða þar næsta ári.“ Ertu sammála formanni Samfylkingarinnar sem sagði í Samtalinu að ef fara ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti að undirbúa hana vel. Hún nefndi ferlið í Svíþjóð í því samhengi eða erum við undirbúin undir að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta með litlum fyrirvara? „Ég held að það sé aldrei gott að fara með of litlum fyrirvara í þjóðaratkvæðagreiðslu um jafn stórt mál. Að því sögðu held ég að við eigum heldur ekki að bíða með það of lengi. Það þarf að gefast rými til að það eigi sér stað lýðræðisleg og upplýst umræða um kosti og galla þess að halda áfram með aðildarviðræðurnar.“ Hún taki undir með Viðreisn um að fyrst verði farið í atkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar og að samningum loknum verði síðan boðað til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Þetta ferli tæki töluverðan tíma. „Ég held að það þurfi ekki mjög langan tíma til að gera upp hug okkar um að halda áfram með aðildarviðræðurnar á meðan það liggur fyrir að það verði svo aftur farið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að þjóðin hafi síðasta orðið um hvort við viljum fara í fulla aðild þegar þetta liggur fyrir. Fólk komist ekki undan hátekjuskatti með fjármagnstekjum Í kosningastefnuskránni er einnig talað um að tekinn verði upp þrepaskiptur tekjuskattur. Hvernig yrði hann útfærður? „Það gætu verið nokkrar leiðir færar í að þrepaskipta fjármagnstekjuskatti. Meginatriðið er að við viljum ekki að fólk komist hjá því að greiða hátekjuskatt með því að taka út eiginlega allar sínar tekjur með fjármagnstekjum. Okkur finnst skattkerfið eins og það er núna ekki réttlátt að því leytinu til að þú greiðir miklu lægri skatt og minna til dæmis til sveitarfélaga í formi útsvars þegar allar þínar tekjur koma frá fjármagnstekjum.“ Píratar væru hins vegar ekki að leggja til aukna skatheimtu á fólk sem ætti til dæmis aðra íbúð sem það leigði út og fengi smávægilegar fjármagnstekjur af því. Það mætti skoða hvort aðgreina mætti á milli tegunda fjármagnstekna eða hækka frítekjumark fjármagnstekna. „Eða viljum við stefna meira í þá átt að fjármagnstekjuskattur verði í ríkari mæli eins og tekjuskattur sem er þrepaskiptur eftir eftir því hvað þú ert með miklar tekjur. Hætta í raun og veru að gera þennan greinarmun á hvers lags tekjurnar eru. Það er kannski langtíma markmiðið,“ segir Þórhildur Sunna. Margir eru hins vegar að fá á sig fjármagnstekjuskatt á sama tíma og þeir eru að fjárfesta í að byggja upp fyrirtæki með tiltekinni áhættu. Þórhildur Sunna segir ýmislegt hægt að gera til að skapa betra og samkeppnishæfara umhverfi. „Ég er til dæmis mjög opin fyrir því að, án þess að við nefnum það held ég í þessari stefnu, að endurskoða hvernig við skattleggjum fyrirtæki. Að við verðum einmitt með einhvers konar frítekjumark gagnvart þeim og horfum frekar til veltunnar. Að fyrirtæki sem eru að byrja séu ekki að borga nokkurn skatt að ráði fyrr en þau eru komin með ákveðna veltu og farin að fá arð. Þá förum við að líta til skattheimtu.“ Það væri því ýmislegt að gera til að styðja fyrirtæki sem væru að stíga sín fyrstu skref, nýsköpunarfyrirtæki. Fjárskortur og áhugaleysi þegar kemur að spillingu Í fráfarandi ríkisstjórn var lögð áhersla á að fækka stofnunum eða sameina þær. Píratar leggja hins vegar til í kosningastefnuskrá að ný stofnun sem rannsaki spillingu verði sett á laggirnar. Þær stofnanir sem fyrir eru og eiga að rannsaka spillingu duga þá ekki til? „Þetta er hugmynd sem fyrirmynd er fyrir víðs vegar um Evrópu. Að það sé sérstök stofnun sem hefur eftirlit með spillingu. Það mætti alveg vera sameining annarra stofnana sem færu inn í það, til að auðvelda það. Ég held að það sé mikilvægt vegna þess að mér og okkur hefur fundist að spilling sé ekki litin nógu alvarlegum augum á Íslandi. Það er ekki nógu oft rannsakað þegar upp koma tilvik sem benda til spillingar. Mér finnst mikilvægt að það sé að minnsta kosti sérstök eining sem hefur þetta hlutverk,“ segir Þórhildur Sunna. Það hafi verið hennar upplifun hingað til að þær einingar sem hafi borið ábyrgð á þessu hefðu annað hvort ekki nægt fjármagn eða áhuga til að sinna rannsóknum á spillingu. Píratar vilja að sérstök stofnun hafi þau verkefni að rannsaka spillingu. Fjárskortur og áhugaleysi hafi staðið slíkum rannsóknum fyrir þrifum fram að þessu.Vísir/Rax „Hér er ég til dæmis að tala um héraðssaksóknara sem getur ekki einu sinni rannsakað stærsta samkeppnislagabrot sem upp hefur komið út af fjárskorti. Þarna er ég að tala um skipafélögin, Samskip og Eimskip. Eða þá að gert er lítið úr mögulegri spillingu eins og varasaksóknari gerði þegar hann var spurður hvort ekki þyrfti að auka í spillingarrannsóknir. Þá eiginlega hló hann það út af borðinu.“ Þessi mál hafi því ekki verið tekin nógu alvarlega. „Við sjáum það líka á álitum frá alþjóðastofnunum eins og GRECO (Group of States Against Corruption) sem hefur verið að koma með mjög góðar ábendingar til okkar. Um hvað við getum til dæmis gert til að draga úr spillingu á Íslandi. Byggja upp spillingarvarnir. En við setjum engan raunverulegan metnað í að koma til móts við það,“ segir Þórhildur Sunna. Ísland er í samstarfi um opin landamæri Útlendingamálin hafa verið mikið í umræðunni undanfarin ár og misseri og ríkisstjórnin sprakk kannski meðal annars vegna þeirra mála. Má maður skilja málflutning Pírata þannig að þið viljið nánast hafa opin landamæri. Að allir sem banka upp á á Íslandi og sæki um vernd fái hana skilyrðislaust? „Þetta er það sem oft er sagt um okkur, að við viljum opin landamæri. Landamærin á íslandi eru opin innan Schengen. Ég held að fólk verði að átta sig á því," segir Þórhildur Sunna. Þeir sem saki Pírata um að mæla með opnum landamærum væru að tala um að taka upp vegabréfsáritanir innan Schengensvæðisins, harðara landamæraeftirlit og jafnvel að fara úr Schengen. „Við því vil ég segja; Schengen er samstarf um landamæraeftirlit og við viljum halda okkur í því samstarfi. Við höfum mjög lítið um það að segja hvernig það regluverk er eins og staðan er núna (sem ríki utan ESB).“ „Þannig að nei, við erum ekki að tala fyrir einhverjum opnum landamærum sem þýðir að við förum út úr Schengen samstarfinu sem við erum í núna. Sem stjórnar að miklu leyti pólitíkinni á landamærunum.“ Þegar komi að móttöku fólks á flótta hafi Píratar talað fyrir því að gera kerfið miklu skilvirkara en það væri í dag. Tilbúinn og dýr flóttamannavandi „Með því að hætta að setja ótrúlega mikla peninga í að reyna að henda fólki, sem vill setjast hérna að og vinna, út úr landinu. Hvers vegna segjum við það? Jú, vegna þess að stærstu kostnaðarliðirnir sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að gráta endurtekið yfir eru kostnaðarliðirnir við að reyna að reka fólk úr landi og neita því um að vinna.“ Ber þá að veita öllum þeim sem hingað koma frá ríkjum utan Schengen svæðisins vernd hér á landi? „Nei. Okkur finnst að meginstefnu til að það eigi að gefa öllum efnismeðferð. Efnismeðferð felur einfaldlega í sér að stjórnvöld skoði hvort þú eigir rétt á að fá hæli samkvæmt þeim viðmiðum og réttindum sem fólk hefur. Það að vísa fólki úr landi án þess að skoða hvort það á rétt á vernd brýtur skuldbindingar okkar samkvæmt alþjóðalögum,“ segir Þórhildur Sunna. Mikil fjölgun hefur verið á fólki á flótta undanfarin misseri vegna stríðsátaka í Úkraínu og Palestínu. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar styðja hefur nú verið gert erfitt fyrir af Ísraelsmönnum.AP/Abdel Kareem Hana Stærstu hóparnir sem væru að sækjast eftir vernd á Íslandi í dag væru frá Úkrainu annars vegar og Venesuela hins vegar. Það væru engin stór vandræði við að veita fólki frá Úkraínu vernd. „Þau fara bara beint í gegnum kerfið, setjast hérna að og geta farið að vinna og gefa okkur til baka í samfélagið. Ég hef engan heyrt nema Miðflokkinn tala fyrir því að hætta að taka á móti fólki frá Úkraínu sem er að flýja stríð heima hjá sér.“ Síðan væri hópur fólks frá Venesuela. Illa komið fram við fólk „Mér finnst alveg sérstaklega illa komið fram við þann hóp. Mér finnst þau hafa verið notuð sem leiksoppur þessarar fráfarandi ríkisstjórnar til að búa til flóttamannavandamál á Íslandi. Þeim eru send þau skilaboð af þessari sömu ríkisstjórn að þau séu velkomin hér. Síðan er lögð gríðarleg pressa á að snúa því við.“ Jafnvel þótt Bandaríkin væru ekki búin að skipta um skoðun á því og segðu enn að það ætti að veita fólki frá Venesuela vernd. Meira að segja þótt Sameinuðu þjóðirnar væru sama sinnis. „Þá ákveður ríkisstjórnin að þetta gangi ekki. Að við séum að taka á móti fólki sem er með gríðarlega mikla atvinnuþátttöku og gengur vel í samfélaginu.“ Það væri ákvörðun um að snúa ákvörðun um að Venesuelar ættu rétt á vernd við og senda fólk úr landi sem kostaði þessar stóru fjárhæðir sem ríkisstjórnin væri að kvarta undan. „Því allt í einu geta þau ekki sest hérna að og byrjað að vinna. Það þarf að koma þeim úr landi sem kostar miklar fjárhæðir,“ segir Þórhildur Sunna. En hver á almenna kríterían að vera? „Almenna kríterían er flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og Dyflinar reglugerðin sem við erum aðilar að. Við skulum ekki gleyma því að það hafa aldrei fleiri verið á flótta í heiminum en nákvæmlega núna. Þetta á eftir að aukast þannig að við verðum að taka afstöðu til þess hvernig við viljum fara inn í þessa framtíð. Viljum við eyða mestum okkar peningum í að láta fólk upplifa að það sé ekki velkomið hér og reynum að henda sem flestum þeirra úr landi eða viljum við finna leið til að ná ákveðnu jafnvægi,“ segir Þórhildur Sunna. Hvað þolir fámennt samfélag, þegar við horfum til þess að við erum 400 þúsund manna samfélag? Eins og þú segir þá er flóttamannavandinn mikill í heiminum, einhver þolmörk hljóta að vera fyrir því fyrir okkur sem þjóð? „Ég held við þurfum að horfa á þolmörkin í töluvert stærra samhengi en hvað við getum tekið á móti mörgum flóttamönnum. Við þurfum að skoða hvað innviðirnir okkar þola marga ferðamenn á ári. Hvað þola innviðirnir okkar marga sem koma hingað til að vinna í ferðaþjónustunni á ári. Hvað þola innviðirnir samfélagið okkar vel.“ Stóra spurningin væri hvernig staðið hafi verið að uppbyggingu innviða landsins fyrir 400 þúsund manna samfélag fram að þessu. „Svar okkar Pírata er; ekki sérlega vel. Fólk sem hingað flytur tekur þátt í að byggja upp innviðina okkar. Þetta er fólk sem vinnur á hjúkrunarheimilunum okkar, fólkið sem vinnur við ræstingar, fiskvinnslu og heilbrigiðskerfið okkar. Þetta er fólkið sem heldur uppi innviðunum okkar. Þannig að hvað þolum við að fá marga í viðbót til að byggja upp innviðina okkar. Ég myndi segja að við þurfum á þessu fólki að halda.“ Fólk á flótta væri ekkert öðruvísi en annað fólk sem hingað flyst til að taka þátt í samfélaginu. „Við verðum að hætta að aðgreina þau og gera þau að einhverjum blóðsugum á kerfinu sem oft er birtingarmyndin á því hvernig þau eru teiknuð upp. Það þarf ekki öðruvísi eða aukalega innviði til að taka á móti fólki á flótta. Það þarf bara að koma fram við það eins og annað fólk. Allt fólk vill taka þátt í samfélaginu. Gera gagn. Vera með í að byggja upp gott samfélag fyrir okkur,“ sagði Þórhildur Sunna í Samtalinu á fimmtudag. Samtalið Alþingiskosningar 2024 Alþingi Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur (2017-2024) Píratar Tengdar fréttir Kallar eftir umboði þjóðarinnar til breytinga Hún kom eins og óskrifað blað inn í íslensk stjórnmál fyrir alþingiskosningarnar 2021 og var orðin formaður Samfylkingarinnar um ári síðar. Fljótlega varð ljóst að hún var stjórnmálamaður af annarri skúffu en flestir. Hún ferðaðist um landið með opna fundi og upp úr þeim ferðum mótaði hún nýja stefnu fyrir Samfylkinguna sem var nálægt því að þurrkast út í kosningunum 2016. 2. nóvember 2024 08:02 Þakklát fyrir að missa ekki sjónina síðar á ævinni Inga Sæland formaður og stofnandi Flokks fólksins gerir lítið úr væringum innan flokksins nú þegar hún leiðir hann í fjórða sinn í kosningum til Alþingis. Tveir áberandi þingmenn í forystu flokksins, Tómas A. Tómasson í Reykjavíkurkjördæmi norður og Jakob Frímann Magnússon í Norðausturkjördæmi, fengu ekki brautargengi til að leiða flokkinn í kjördæmum sínum. 26. október 2024 08:02 Formaður Framsóknar segir ríkisstjórnina hafa talað sjálfa sig niður Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefur lagt sjálfan sig að veði í komandi alþingiskosningum með því að taka annað sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Þar með baráttusætið því flokkurinn hefur ekki mælst með mann inni úr kjördæminu í nýjustu könnunum. 19. október 2024 08:02 Íslendingar eiga ekki að aðlaga sig innflytjendum heldur öfugt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að vogunarsjóðir hafi hótað honum þegar hann var forsætisráðherra vegna þess að hann vildi láta sjóðina taka skellinn af falli íslensku bankanna. 10. október 2024 22:02 Þorgerður Katrín: Enginn ráðskonurass undir fólki í Viðreisn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er keppniskona með mikla reynslu af stjórnmálum og er kominn í hlaupaskóna fyrir næstu alþingiskosningar. Hún segir engann „ráðskonurass undir fólki í Viðreisn," sem taki almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Þegar Benedikt Jóhannesson, aðalhvatamaður að stofnun Viðreisnar og fyrsti formaður flokksins, sagði af sér formennskunni aðeins sautján dögum fyrir kosningarnar 2017, stökk Þorgerður Katrín upp í brú á þessu nýsjósetta skipi í ólgusjó íslenskra stjórnmála og kom því í höfn. 5. október 2024 08:00 Brotthvarf Katrínar hafði mikil áhrif Svandís Svavarsdóttir er staðráðin í að Vinstrihreyfingin grænt framboð nái fulltrúum á þing í næstu alþingiskosningum þótt kannanir að undanförnu sýni að þar verði á brattan að sækja. Í Samtalinu á Vísi á fimmtudag fór hún yfir erindi hreyfingarinnar, stjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn í sjö ár og hvaða mál það eru sem hún telur mikilvægt að ná í gegn á Alþingi fyrir kosningar. 28. september 2024 08:01 Maður margra storma íhugar stöðu sína Bjarni Benediktsson hefur í fyrsta sinn opinberlega greint frá því að hann íhugi nú stöðu sína eftir fimmtán ár í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins. Hann geri sér grein fyrir að dagur ákvörðunar renni upp innan hálfs árs, eða fyrir landsfund flokksins sem fram fer um mánaðamótin febrúar-mars á næsta ári. Ef til vill væri kominn tími til að hleypa nýju blóði inn í forystu flokksins. 21. september 2024 08:00 Mest lesið Fengu tæpar fimm og sex milljónir króna í tvöföldum launagreiðslum Innlent Finnst of langt gengið í glæpavæðingu í umfjöllun um Carbfix Innlent Viðbúin því að fylgjendum fækki í kjölfar TikTok-banns Innlent Undrast sinnuleysi forvera sinna og vill lagabreytingar Innlent Ungmenni nota tálbeituaðferðir til að ráðast á meinta níðinga Innlent Starfsmanni ÍSÍ dauðbrá þegar hún mætti til vinnu Innlent Starfsmaður frá Filippseyjum syngur og syngur á Selfossi Innlent Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að breikka faðminn og vera hlýrri Innlent Meinað að heimsækja fjölskylduna því hann var skyndilega kominn á bannlista Innlent Reyndi að stinga af á bíl og svo á hlaupum Innlent Fleiri fréttir Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að breikka faðminn og vera hlýrri Reyndi að stinga af á bíl og svo á hlaupum Fengu tæpar fimm og sex milljónir króna í tvöföldum launagreiðslum Viðbúin því að fylgjendum fækki í kjölfar TikTok-banns Finnst of langt gengið í glæpavæðingu í umfjöllun um Carbfix Kviknaði í gámi í byggingarsvæði við gamla Orkuhúsið Undrast sinnuleysi forvera sinna og vill lagabreytingar Starfsmaður frá Filippseyjum syngur og syngur á Selfossi Ungmenni nota tálbeituaðferðir til að ráðast á meinta níðinga Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar Stórhættulegar tálbeituaðgerðir ungmenna á samfélagsmiðlum Hefja undirbúning verkfalla í framhaldsskólum Taka sýni úr mink sem fannst dauður í Vatnsmýri Starfsmanni ÍSÍ dauðbrá þegar hún mætti til vinnu Aflýsa óvissustigi vegna Bárðarbungu Sér rautt vegna ærslabelgs fyrir framan húsið sitt „Þarna náum við að svæla allt upp á yfirborðið“ Börnin sem talin voru í hættu komu í leitirnar á Suðurnesjum Þing verður sett eftir rúman hálfan mánuð Rannsaka ólöglegt fiskeldi veiðifélags í Borgarfirði Tveir handteknir í fíkniefnamáli fyrir austan Fimm tóku fyrstu skóflustunguna að Borgarlínu Hótaði að kveikja í sambýliskonu og stjúpsyni Skóflustunga tekin að Fossvogsbrú og bandarísk börn sem fundust á Íslandi Kannast ekki við að vera látinn Mikil hálka þegar banaslysið varð Aktivistahópurinn Öfgar er hættur Segir ríkið verða að standa við gerða samninga um borgarlínu Meinað að heimsækja fjölskylduna því hann var skyndilega kominn á bannlista Sannfærð um að nýtt bókunarkerfi leysi vandann Sjá meira
Það eru ellefu ár frá því Píratar buðu fyrst fram til Alþingis árið 2013 og þeir hafa allan þann tíma verið í stjórnarandstöðu. Hreyfingin var næst því að komast í ríkisstjórn eftir að skammlíf ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk haustið 2017. Eftir stuttar þreifingar Vinstri grænna, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata varð hins vegar úr að Katrín Jakobsdóttir myndaði ríkisstjórn Vinstri grænna með Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Sjö árum síðar segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata hreyfinguna reiðubúna til stjórnarsamstarfs. Hún hefur setið á þingi fyrir hreyfinguna allt frá alþingiskosningunum 2016 og hefur látið sig mannréttindamál hér á landi og að heiman varða. Þórhildur Sunna er með meistaragráðu frá hollenskum háskóla í mannréttindum og alþjóðlegum refsirétti og hefur verið einn fulltrúa Íslands í íslandsdeild Evrópuráðsþingsins frá 2017. Nú þegar einungis rúmar þrjár vikur eru til kosninga er á brattann að sækja fyrir Pírata. Í könnun Maskínu frá því á fimmtudag mælist flokkurinn aðeins með 4,9 prósenta fylgi og gæti því fallið af þingi. Vísbendingar eru hins vegar um að hreyfingin nái inn manni í Suðvesturkjördæmi þar sem Þórhildur Sunna er í oddvitasæti. Leyfi mér ekki að vera hrædd Þórhildur Sunna segist bjartsýn um úrslit komandi kosninga þrátt fyrir lítið fylgi Pírata í skoðanakönnunum að undanförnu.Vísir/Rax „Ég ætla ekki að leyfa mér að vera hrædd og er bara bjartsýn og brött fyrir þessar kosningar. Held að við rúllum inn á þing, segir Þórhildur Sunna. Fylgi Pírata aukist lítillega milli vikna og hún voni að staðan batni nú þegar kosningabaráttan væri komin á fullt. „Við Píratar höfum í töluverðan tíma stefnt á setu í ríkisstjórn. Eins og þú segir, við höfum verið í stjórnarandstöðu allan þennan tíma og lært gríðarlega mikið af því. Og líka séð að til þess að ná árangri, sem við höfum sannarlega náð í stjórnarandstöðu, að til þess að geta haft þessi stóru áhrif til breytinga sem við viljum hafa, þurfum við komast í ríkisstjórn til að fylgja því eftir,“ segir Þórhildur Sunna. Það er ekki nýtt að Píratar eigi á brattann að sækja í könnunum fyrir kosningar og þá sérstaklega í landsbyggðarkjördæmunum. Þórhildur Sunna segir flokkinn hafa mjög frambærilega og flotta byggðastefnu. „Við erum með umhverfisstefnu þar sem einnig er mikið hugað að byggðum landsins. Við tölum fyrir því að efla samgöngur og innviði á landsbyggðinni. Við höfum lagst á sveif með þeim sem til dæmis ekki vilja sjá sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Erum með margt sem ég tel að bjóði upp á sterkari stöðu á landsbyggðinni.“ Flokkurinn hafi flotta oddvita sem hafi sterk tengsl við sín kjördæmi. Hún vonist því til að flokkurinn fái betri útkomu í öllum kjördæmum. „Við höfum séð aukinn stuðning í Norðvesturkjördæmi í sumum könnunum. Höfum alltaf átt svolítið á brattann að sækja í Norðausturkjördæmi en það hefur gerst að Píratar hafi fengið kjörinn í þingmann í hverju einasta kjördæmi landsins. Það er ekkert sem segir að við getum ekki gert það aftur.“ Eini flokkurinn með prófkjör um allt land Fljótt á litið er hins vegar ekki hægt að tala um mjög mikla endurnýjun á listum Pírata á höfuðborgarsvæðinu. Eru núverandi þingmenn ómissandi í sveit Pírata? „Við vorum eini flokkurinn á landinu sem fór í prófkjör. Félagsmennirnir okkar ákváðu hvernig listunum skyldi stillt upp. Við erum með mjög frambærilegan nýjan oddvita í Reykjavík, Lenyu Rún Taha Karim. Björn Leví (Gunnarsson) heldur sínu sæti sem annar oddvitanna í Reykjavík og ég mínu í Suðvesturkjördæmi. Svo erum við með nýja oddvita í öllum landsbyggðarkjördæmunum. Ég myndi telja það mikla endurnýjun,” segir Þorgerður Sunna. Að auki væru Píratar með nýtt fólk í sætum sem alla jafna gætu talist þingsæti og hún telji að geti látið vel til sín taka. Hún nefnir sérstaklega Derek Terell Allen og Dóru Björt Guðjónsdóttur borgarfulltrúa sem nú reyni fyrir sér í landsmálunum. Það væri mikill fengur af þeim. Ekki í stjórn með Sjálfstæðisflokki og sennilega ekki Miðflokki Píratar hafa lýst því yfir fyrir undanfarnar kosningar að flokkurinn muni ekki fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Þórhildur Sunna segir það einnig eiga við núna. Hvers vegna? „Við höfum einfaldlega lýst þeirri skoðun okkar að almenningur væri upplýstur um að atkvæði greitt okkur þýðir ekki atkvæði greitt ríkisstjórn með samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Okkur finnst mjög mikilvægt að vera mjög opin og gagnsæ með það.” Getið þið starfað með öllum hinum flokkunum sem núna eru á Alþingi? „Við höfum bent á að það er ýmislegt sem skilur okkur og Miðflokkinn að þegar kemur að grundvallar hugmyndafræði um hvað er rétt og rangt í samfélaginu. Þau afneita loftslagsbreytingum, þau tala á móti réttindum fólks byggt á kynvitund og annað. Ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér að það myndi ganga upp.“ Píratar gætu hins vegar fundið samstarfsflöt með öðrum flokkum á þingi. Einnig með Sósíalistaflokknum sem væri með nákvæmlega sömu stefnu og Píratar í mörgum málum. Margir tala um að erfitt sé að ná utan um hvað Píratar standa. Hver er grunnstefna Pírata? „Einmit. Það er eitthvað sem okkur hefur verið legið á hálsi með; að vera ekki nógu skýr með fyrir hvað við stöndum og að fólk átti sig ekki nægjanlega á okkur. Það er kannski vegna þess að við viljum ekki skilgreina okkur á þessum hægri-vinstri ás. Þar sem við horfum stundum til lausna sem eru hefðbundið hægri og stundum hefðbundið vinstri,“ segir þingflokksformaðurinn. Píratar byggja á aðferðafræði og gildismati Grunnstefna Pírata væri ákveðin aðferðafræði og gildismat sem þar lægi að baki. „Hún snýr að því að taka upplýstar ákvarðanir, byggðar á gögnum. Byggðar á ríku lýðræðislegu samráði. Við leggjum gríðarlega mikla áherslu á lýðræðið og allar stoðirnar sem fylgja lýðræðinu. Öruggar kosningar, öflugt réttarríki, ríkt samráð við almenning. Meiri aðkomu almennings en ákvarðanataka á fjögurra ára fresti.“ Þórhildur Sunna segir almenning eiga rétt á vita hvað stjórnvöld aðhafast hverju sinnni.Vísir/Rax Þessi hugmyndafræði og lýðræðisleg sjónarmið væru leiðarljós Pírata í þeirra vinnu. Að nálgast hlutina á lýðræðislegum forsendum og viðhafa gagnsæi í ákvarðanatöku. Tryggja aðgengi að upplýsingum þannig að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir. „Fólk viti hvað stjórnvöld eru að gera. Þurfi ekki að treysta í blindni. Fjölmiðlar hafi aðgang að þessum upplýsingum og geti upplýst almenning og að við séum opin fyrir hugmyndum sama hvaðan þær koma. Þú nefnir hvort við viljum fara í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Við höfum ekki verið tilbúin til þess en hins vegar verið reiðubúin að vinna með Sjálfstæðisflokknum að halda áfram með góðar hugmyndir. Vinna með þeim að góðum málum, þótt við værum ekki tilbúin að kvitta upp á ríkisstjórnarsáttmála með þeim,“ segir Þórhildur Sunna. Þannig væru Píratar reiðubúnir að skoða góðar hungmyndir sama hvaðan þær kæmu. Tilbúnir til að endurskoða afstöðu sína ef í ljós kæmi að ákvarðanir hafi verið byggðar á úreltum gögnum eða á röngum forsendum. Hafa sannað sig í meirihluta borgarstjórnar Gæti þetta reynst ykkur fjötur um fót. Þyrftu Píratar í ríkisstjórn að bera allar meiriháttar ákvarðanir undir atkvæði í hreyfingunni í heild? „Nei og ég held að samstarf okkar í borginni hafi sýnt að Píratar eru vel til þess fallnir að vera í meirihlutasamstarfi. Við erum búin að vera kjölfestan í meirihlutasamstarfi í Reykjavík, milli Samfylkingar, Pírata og nokkurra annarra flokka sem hafa aðeins róterast í tíu ár. Þar eru ekki atkvæðagreiðslur vikulega innan Pírata hvort fara eigi leið A eða B í að ná fram ákveðnum markmiðum,” segir Þórhildur Sunna. Fulltrúar flokksins hefðu umboð félagsmanna rétt eins og fulltrúar annarra stjórnmálahreyfinga til að búa til stjórnarsáttmála og fylgja honum eftir. „Auðvitað eins og hjá öðrum hreyfingum fer stjórnarsáttmáli í atkvæðagreiðslu hjá okkar félagsmönnum þegar hann liggur fyrir. Það er aðkoma grasrótarinnar. Svo erum við auðvitað í virku samráði og samtali. En þetta sem oft hefur verið málað upp; leikurinn sem fólk óttast kannski að endurtaki sig þegar Björt framtíð heldur næturfund þar sem ákveðið er í atkvæðagreiðslu að slíta ríkisstjórn. Þetta er ekki eitthvað sem getur gerst hjá Pírötum.“ Uppbygging flokksins væri ekki með þeim hætti. Það væru þingmenn sem færu með stjórnarmyndunarumboðið og bæru ábyrgð gagnvart samstarfsflokkum og færu vel með það. „Við myndum ekki rjúka til með atkvæðagreiðslur um allt mögulegt,“ segir Þórhildur Sunna. Hvað var það þá sem fældi Framsóknarflokkinn frá samstarfi við Pírata árið 2017 þegar Framsóknarflokkurinn treysti sér ekki til samstarfs við Pírata einhverra hluta vegna? „Þeir vildu ekki upplýsa hvað það var sem þeir treystu okkur ekki fyrir á þeim tímapunkti. En það er margt vatn búið að renna til sjávar síðan þá og Framsóknarflokkurinn hefur gengið inn í samstarf við Pírata í borginni. Hefur upplifað hvernig er að vinna með okkur þar. Þannig að ég held að það sé auðveldara að spyrja Framsókn að því hvað það er við okkur sem þau treysta ekki alveg,” segir þingflokksformaður Pírata. Mögukega hafi mýtan um að Píratar búi við óstöðugt stjórnarfar haft áhrif. Að ekki væri hægt að treysta því að Píratar væru samstarfsfúsir og lausnarmiðaðir. Mikilvæg grundvallaratriði Kannski of prinsippföst ef upp kæmu óvænt og umdeild mál? Píratar eiga erfitt með að líða sjálftöku og spillingu að sögn Þórhildar Sunnu og krefjast þess að fólk taki ábyrgð á gerðum sínum.Vísir/Rax „Mér finnst mikilvægt um hvaða prinsipp við erum að tala og við erum ekki tilbúin að víkja frá. Það eru grundvallar mannréttindi borgaranna, að við búum í réttarríki þar sem réttindi borgara eru tryggð. Þar sem ekki er beinlínis brotið á réttindum fólks með lagasetningu eða aðgerðum stjórnvalda. Fólk sé varið fyrir valdníðslu. Þetta er eitthvað sem við erum ekki tilbúin að nota sem einhvers konar pólitíska skiptimynt,“ segir Þórhildur Sunna. Píratar væru til dæmis ekki tilbúnir til að selja réttindi jaðarsettra hópa til að halda einhverjum stólum. Þetta snúist um vandaða lagasetningu og farið væri betur í gegnum stjórnarfrumvörp en gert hafi verið hingað til. „Hitt er að við eigum erfitt með að líða sjálftöku og spillingu. Ef það koma upp alvarleg spillingarmál höfum við gefið það út að okkur finnst mikilvægt að fólk gangi hreint fram. Það gangist við sinni ábyrgð ef hún er til staðar og farið verði ofan í saumana á málum sem vekja upp spurningar hvort um hafi verið að ræða sjálftöku eða spillingu.“ Það þýði ekki að ef upp vakni spurningar ætli Píratar að hlaupast undan merkjum og gefast upp. „En við krefjumst þess af fólki sem vinnur með okkur og af okkur sjálfum að við stundum gagnsæ vinnubrögð og við séum tibúin að fara ofan í kjölinn á umdeildum málum.“ Erfiðar innanbúðadeilur Það varpaði nokkrum skugga á áru Pírata þegar upp komu deilur innan Pírata um kjör í framkvæmdastjórn hreyfingarinnar. Þegar Atli Þór Fanndal starfsmaður þingflokksins gengur fram, að manni skilst á fréttum, og smalar á fund til að kjósa í framkvæmdastjórn. Hann er síðan látinn fara og umboði varamanna í framkvæmdastjórn er breytt þannig að þeir hafi sama umboð og varamenn. Hvað var eiginlega á ferðinni hjá Pírötum og var þingflokkurinn að setja puttana í eitthvað sem hann átti kannski ekki að gera? Þórhildur Sunna segir deilurnar um hvernig staðið var að kjöri í framkvæmdastjórn hreyfingarinnar hafi verið erfiðar. Nú ríkti hins vegar jakvæðni og sátt í kosningabaráttunni.Vísir/Rax „Það sem gerðist er að Píratar boða til aðalfundar þar sem kosin er ný framkvæmdastjórn. Þú nefnir smölun, ég gæti nefnt ákveðinn trúnaðarbrest sem varð því miður gagnvart okkur í þingflokknum að hálfu Atla Þórs. Úr varð að hann lætur af störfum hjá okkur,“ segir Þórhildur Sunna. Ýmsu hafi verið haldið fram um þetta mál. „Það sem gerist er að nýtt fólk er kjörið í framkvæmdastjórn og ég vil fá að halda því til haga að ég var mjög ánægð með þessa nýju framkvæmdastjórn. Mjög glöð að fá þennan nýja styrk inn í hreyfinguna okkar. En það voru ákveðnar áhyggjur upp um hvernig þetta kjör hefði farið fram. Það voru deilur sem ég held að okkur hafi tekist að leysa ágætlega.“ Það væri hins vegar kannski erfitt að segja núna hvort framkvæma hefði átt hlutina svona eða hinsegin. Hreyfingin hefði átt að bregðast svona eða hinsegin við eða ekki. „Ég held að það fylgi oft öllum kosningum inni í stjórnmálahreyfingum einhvers konar ósætti eða uppnám.“ Ekki brot á persónuverndarlögum að skoða óumbeðin gögn Þið viljið vera opinská með alla hluti og það komu fram ásakanir um að þingflokkurinn hafi verið að lesa yfir einhvern spjallþráð sem hann ætti ekki að vera að lesa yfir og svo framvegis? „Já, það komu fram ásakanir um að við hefðum gerst brotleg við persónuverndarlög. Talandi um gagnsæi. Við fengum send skjáskot sem við báðum ekki um. Það er það sem okkur hefur verið legið á hálsi að skoða.“ Hún geti ekki tekið undir að það sé brot á persónuverndarlögum að fá upplýsingar sem ekki hafi verið óskað eftir. „Að þessu sögðu finnst mér ótrúlega leiðinlegt hvernig þetta fór. Einnig gagnvart Atla Þór sem er augljóslega mjög sár út í okkur eftir þennan aðskilnað. Mér finnst það mjög leiðinlegt. Við vorum vinir og ég vildi að þetta myndi ganga vel hjá okkur og var mjög bjartsýn á það.“ Þetta hafi verið tímabundin ráðning sem því miður hafi ekki gengið upp. „Þetta var smá stund þar sem fólk var ósátt og hissa á niðurstöðum kosninganna. Það var ósátt við afskipti samskiptastjóra þingflokks Pírata af því hvernig þessar kosningar fóru. Þingflokkurinn átti í samtali við fólk innan hreyfingarinnar um hvað við gætum gert til að ná saman. En við vorum ekki í einhverju uppnámi yfir því hvernig þetta fór. Við vildum reyna að sætta sjónarmið, sagði Þórhildur Sunna í Samtalinu á fimmtudag. Mér finnst ótrúlega leiðinlegt hvernig þetta fór. Að Atli Þór gangi ósáttur frá borði en ég hafna því að við höfum brotið persónuverndarlög með því að taka við upplýsingum sem okkur voru sendar. Ég get heldur ekki tjáð mig um hver gerði það,“ segir Þórhildur Sunna. Það væri erfitt að ræða þessi mál þar sem þau væri starfsmannamál og þar giltu ákveðin lög og reglur. „Niðurstaðan er, og ég held að það sé mikilvægt að við höldum okkur við niðurstöðuna, að það er sátt innan framkvæmdastjórnar. Það er ánægja og bjartsýni fyrir þessa kosningabaráttu. Þetta var vissulega erfitt mál fyrir okkur á þessum tíma en við erum alveg búin að greiða úr því innan okkar raða,“ segir þingflokksformaðurinn. Vill hefja aðildarviðræður við ESB sem fyrst Atkvæðagreiðslu um kosningastefnuskrá Pírata lauk á fimmtudagskvöld og þar kennir ýmissra grasa. Meðal annars að Píratar vilji að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um að hefja á ný aðildarviðræður við Evrópusambandið. Píratar eru því á svipuðum slóðum með það mál og Viðreisn. Hvers vegna er það góð hugmynd á þessum tímapunkti? „Þetta er reyndar búið að vera stefna Pírata eins lengi og ég man, að við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður. Þetta er eitthvað sem þjóðinni hefur verið lofað í rúm tíu ár og ekki verið staðið við,“ segir Þórhildur Sunna. Píratar treystu þjóðinni til að taka rétta ákvörðun fyrir hagsmuni Íslands. „Mér finnst það sérstaklega tímabært núna eftir að Donald Trump ber sigur úr býtum í bandarísku forsetakosningunum. Vegna yfirlýstrar stefnu hans gagnvart bæði NATO og Úkraínu. Gagnvart tollum og viðskiptum við helstu viðskiptaríki. Að þá sé mikilvægt fyrir okkur að halla okkur nær þeim ríkjum sem deila með okkur grundvallar hugmyndum um lýðræði, réttarríki, mannréttindi, réttindi jaðarsettra hópa.“ Þetta væri enn í gildi víðs vegar um Evrópu og Ísland ætti að vinna að nánara sambandi við ríki sem deildu þessum grunnhugmyndum. Þannig að það er ekki svo mikið gjaldmiðillinn og efnahagsmálin? „Það er líka gjaldmiðillinn, efnahagsmálin og samkeppnisumhverfið. Aðgengi fólks að samkeppnishæfu lánsfé, húsnæðismarkaði og öllu því sem þetta getur vel boðið upp á. En það er lengri tíma sýn. Þetta tekur allt sinn tíma.“ Þórhildur Sunna telur mögulegt að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið jafnvel strax á næsta ári.Vísir/Rax Fyrst þurfi að ná saman um markmiðið að Ísland halli sér meira að Evrópu en hingað til. „Þá værum við kannski að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta ári eða þar næsta ári.“ Ertu sammála formanni Samfylkingarinnar sem sagði í Samtalinu að ef fara ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti að undirbúa hana vel. Hún nefndi ferlið í Svíþjóð í því samhengi eða erum við undirbúin undir að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta með litlum fyrirvara? „Ég held að það sé aldrei gott að fara með of litlum fyrirvara í þjóðaratkvæðagreiðslu um jafn stórt mál. Að því sögðu held ég að við eigum heldur ekki að bíða með það of lengi. Það þarf að gefast rými til að það eigi sér stað lýðræðisleg og upplýst umræða um kosti og galla þess að halda áfram með aðildarviðræðurnar.“ Hún taki undir með Viðreisn um að fyrst verði farið í atkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar og að samningum loknum verði síðan boðað til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Þetta ferli tæki töluverðan tíma. „Ég held að það þurfi ekki mjög langan tíma til að gera upp hug okkar um að halda áfram með aðildarviðræðurnar á meðan það liggur fyrir að það verði svo aftur farið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að þjóðin hafi síðasta orðið um hvort við viljum fara í fulla aðild þegar þetta liggur fyrir. Fólk komist ekki undan hátekjuskatti með fjármagnstekjum Í kosningastefnuskránni er einnig talað um að tekinn verði upp þrepaskiptur tekjuskattur. Hvernig yrði hann útfærður? „Það gætu verið nokkrar leiðir færar í að þrepaskipta fjármagnstekjuskatti. Meginatriðið er að við viljum ekki að fólk komist hjá því að greiða hátekjuskatt með því að taka út eiginlega allar sínar tekjur með fjármagnstekjum. Okkur finnst skattkerfið eins og það er núna ekki réttlátt að því leytinu til að þú greiðir miklu lægri skatt og minna til dæmis til sveitarfélaga í formi útsvars þegar allar þínar tekjur koma frá fjármagnstekjum.“ Píratar væru hins vegar ekki að leggja til aukna skatheimtu á fólk sem ætti til dæmis aðra íbúð sem það leigði út og fengi smávægilegar fjármagnstekjur af því. Það mætti skoða hvort aðgreina mætti á milli tegunda fjármagnstekna eða hækka frítekjumark fjármagnstekna. „Eða viljum við stefna meira í þá átt að fjármagnstekjuskattur verði í ríkari mæli eins og tekjuskattur sem er þrepaskiptur eftir eftir því hvað þú ert með miklar tekjur. Hætta í raun og veru að gera þennan greinarmun á hvers lags tekjurnar eru. Það er kannski langtíma markmiðið,“ segir Þórhildur Sunna. Margir eru hins vegar að fá á sig fjármagnstekjuskatt á sama tíma og þeir eru að fjárfesta í að byggja upp fyrirtæki með tiltekinni áhættu. Þórhildur Sunna segir ýmislegt hægt að gera til að skapa betra og samkeppnishæfara umhverfi. „Ég er til dæmis mjög opin fyrir því að, án þess að við nefnum það held ég í þessari stefnu, að endurskoða hvernig við skattleggjum fyrirtæki. Að við verðum einmitt með einhvers konar frítekjumark gagnvart þeim og horfum frekar til veltunnar. Að fyrirtæki sem eru að byrja séu ekki að borga nokkurn skatt að ráði fyrr en þau eru komin með ákveðna veltu og farin að fá arð. Þá förum við að líta til skattheimtu.“ Það væri því ýmislegt að gera til að styðja fyrirtæki sem væru að stíga sín fyrstu skref, nýsköpunarfyrirtæki. Fjárskortur og áhugaleysi þegar kemur að spillingu Í fráfarandi ríkisstjórn var lögð áhersla á að fækka stofnunum eða sameina þær. Píratar leggja hins vegar til í kosningastefnuskrá að ný stofnun sem rannsaki spillingu verði sett á laggirnar. Þær stofnanir sem fyrir eru og eiga að rannsaka spillingu duga þá ekki til? „Þetta er hugmynd sem fyrirmynd er fyrir víðs vegar um Evrópu. Að það sé sérstök stofnun sem hefur eftirlit með spillingu. Það mætti alveg vera sameining annarra stofnana sem færu inn í það, til að auðvelda það. Ég held að það sé mikilvægt vegna þess að mér og okkur hefur fundist að spilling sé ekki litin nógu alvarlegum augum á Íslandi. Það er ekki nógu oft rannsakað þegar upp koma tilvik sem benda til spillingar. Mér finnst mikilvægt að það sé að minnsta kosti sérstök eining sem hefur þetta hlutverk,“ segir Þórhildur Sunna. Það hafi verið hennar upplifun hingað til að þær einingar sem hafi borið ábyrgð á þessu hefðu annað hvort ekki nægt fjármagn eða áhuga til að sinna rannsóknum á spillingu. Píratar vilja að sérstök stofnun hafi þau verkefni að rannsaka spillingu. Fjárskortur og áhugaleysi hafi staðið slíkum rannsóknum fyrir þrifum fram að þessu.Vísir/Rax „Hér er ég til dæmis að tala um héraðssaksóknara sem getur ekki einu sinni rannsakað stærsta samkeppnislagabrot sem upp hefur komið út af fjárskorti. Þarna er ég að tala um skipafélögin, Samskip og Eimskip. Eða þá að gert er lítið úr mögulegri spillingu eins og varasaksóknari gerði þegar hann var spurður hvort ekki þyrfti að auka í spillingarrannsóknir. Þá eiginlega hló hann það út af borðinu.“ Þessi mál hafi því ekki verið tekin nógu alvarlega. „Við sjáum það líka á álitum frá alþjóðastofnunum eins og GRECO (Group of States Against Corruption) sem hefur verið að koma með mjög góðar ábendingar til okkar. Um hvað við getum til dæmis gert til að draga úr spillingu á Íslandi. Byggja upp spillingarvarnir. En við setjum engan raunverulegan metnað í að koma til móts við það,“ segir Þórhildur Sunna. Ísland er í samstarfi um opin landamæri Útlendingamálin hafa verið mikið í umræðunni undanfarin ár og misseri og ríkisstjórnin sprakk kannski meðal annars vegna þeirra mála. Má maður skilja málflutning Pírata þannig að þið viljið nánast hafa opin landamæri. Að allir sem banka upp á á Íslandi og sæki um vernd fái hana skilyrðislaust? „Þetta er það sem oft er sagt um okkur, að við viljum opin landamæri. Landamærin á íslandi eru opin innan Schengen. Ég held að fólk verði að átta sig á því," segir Þórhildur Sunna. Þeir sem saki Pírata um að mæla með opnum landamærum væru að tala um að taka upp vegabréfsáritanir innan Schengensvæðisins, harðara landamæraeftirlit og jafnvel að fara úr Schengen. „Við því vil ég segja; Schengen er samstarf um landamæraeftirlit og við viljum halda okkur í því samstarfi. Við höfum mjög lítið um það að segja hvernig það regluverk er eins og staðan er núna (sem ríki utan ESB).“ „Þannig að nei, við erum ekki að tala fyrir einhverjum opnum landamærum sem þýðir að við förum út úr Schengen samstarfinu sem við erum í núna. Sem stjórnar að miklu leyti pólitíkinni á landamærunum.“ Þegar komi að móttöku fólks á flótta hafi Píratar talað fyrir því að gera kerfið miklu skilvirkara en það væri í dag. Tilbúinn og dýr flóttamannavandi „Með því að hætta að setja ótrúlega mikla peninga í að reyna að henda fólki, sem vill setjast hérna að og vinna, út úr landinu. Hvers vegna segjum við það? Jú, vegna þess að stærstu kostnaðarliðirnir sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að gráta endurtekið yfir eru kostnaðarliðirnir við að reyna að reka fólk úr landi og neita því um að vinna.“ Ber þá að veita öllum þeim sem hingað koma frá ríkjum utan Schengen svæðisins vernd hér á landi? „Nei. Okkur finnst að meginstefnu til að það eigi að gefa öllum efnismeðferð. Efnismeðferð felur einfaldlega í sér að stjórnvöld skoði hvort þú eigir rétt á að fá hæli samkvæmt þeim viðmiðum og réttindum sem fólk hefur. Það að vísa fólki úr landi án þess að skoða hvort það á rétt á vernd brýtur skuldbindingar okkar samkvæmt alþjóðalögum,“ segir Þórhildur Sunna. Mikil fjölgun hefur verið á fólki á flótta undanfarin misseri vegna stríðsátaka í Úkraínu og Palestínu. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar styðja hefur nú verið gert erfitt fyrir af Ísraelsmönnum.AP/Abdel Kareem Hana Stærstu hóparnir sem væru að sækjast eftir vernd á Íslandi í dag væru frá Úkrainu annars vegar og Venesuela hins vegar. Það væru engin stór vandræði við að veita fólki frá Úkraínu vernd. „Þau fara bara beint í gegnum kerfið, setjast hérna að og geta farið að vinna og gefa okkur til baka í samfélagið. Ég hef engan heyrt nema Miðflokkinn tala fyrir því að hætta að taka á móti fólki frá Úkraínu sem er að flýja stríð heima hjá sér.“ Síðan væri hópur fólks frá Venesuela. Illa komið fram við fólk „Mér finnst alveg sérstaklega illa komið fram við þann hóp. Mér finnst þau hafa verið notuð sem leiksoppur þessarar fráfarandi ríkisstjórnar til að búa til flóttamannavandamál á Íslandi. Þeim eru send þau skilaboð af þessari sömu ríkisstjórn að þau séu velkomin hér. Síðan er lögð gríðarleg pressa á að snúa því við.“ Jafnvel þótt Bandaríkin væru ekki búin að skipta um skoðun á því og segðu enn að það ætti að veita fólki frá Venesuela vernd. Meira að segja þótt Sameinuðu þjóðirnar væru sama sinnis. „Þá ákveður ríkisstjórnin að þetta gangi ekki. Að við séum að taka á móti fólki sem er með gríðarlega mikla atvinnuþátttöku og gengur vel í samfélaginu.“ Það væri ákvörðun um að snúa ákvörðun um að Venesuelar ættu rétt á vernd við og senda fólk úr landi sem kostaði þessar stóru fjárhæðir sem ríkisstjórnin væri að kvarta undan. „Því allt í einu geta þau ekki sest hérna að og byrjað að vinna. Það þarf að koma þeim úr landi sem kostar miklar fjárhæðir,“ segir Þórhildur Sunna. En hver á almenna kríterían að vera? „Almenna kríterían er flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og Dyflinar reglugerðin sem við erum aðilar að. Við skulum ekki gleyma því að það hafa aldrei fleiri verið á flótta í heiminum en nákvæmlega núna. Þetta á eftir að aukast þannig að við verðum að taka afstöðu til þess hvernig við viljum fara inn í þessa framtíð. Viljum við eyða mestum okkar peningum í að láta fólk upplifa að það sé ekki velkomið hér og reynum að henda sem flestum þeirra úr landi eða viljum við finna leið til að ná ákveðnu jafnvægi,“ segir Þórhildur Sunna. Hvað þolir fámennt samfélag, þegar við horfum til þess að við erum 400 þúsund manna samfélag? Eins og þú segir þá er flóttamannavandinn mikill í heiminum, einhver þolmörk hljóta að vera fyrir því fyrir okkur sem þjóð? „Ég held við þurfum að horfa á þolmörkin í töluvert stærra samhengi en hvað við getum tekið á móti mörgum flóttamönnum. Við þurfum að skoða hvað innviðirnir okkar þola marga ferðamenn á ári. Hvað þola innviðirnir okkar marga sem koma hingað til að vinna í ferðaþjónustunni á ári. Hvað þola innviðirnir samfélagið okkar vel.“ Stóra spurningin væri hvernig staðið hafi verið að uppbyggingu innviða landsins fyrir 400 þúsund manna samfélag fram að þessu. „Svar okkar Pírata er; ekki sérlega vel. Fólk sem hingað flytur tekur þátt í að byggja upp innviðina okkar. Þetta er fólk sem vinnur á hjúkrunarheimilunum okkar, fólkið sem vinnur við ræstingar, fiskvinnslu og heilbrigiðskerfið okkar. Þetta er fólkið sem heldur uppi innviðunum okkar. Þannig að hvað þolum við að fá marga í viðbót til að byggja upp innviðina okkar. Ég myndi segja að við þurfum á þessu fólki að halda.“ Fólk á flótta væri ekkert öðruvísi en annað fólk sem hingað flyst til að taka þátt í samfélaginu. „Við verðum að hætta að aðgreina þau og gera þau að einhverjum blóðsugum á kerfinu sem oft er birtingarmyndin á því hvernig þau eru teiknuð upp. Það þarf ekki öðruvísi eða aukalega innviði til að taka á móti fólki á flótta. Það þarf bara að koma fram við það eins og annað fólk. Allt fólk vill taka þátt í samfélaginu. Gera gagn. Vera með í að byggja upp gott samfélag fyrir okkur,“ sagði Þórhildur Sunna í Samtalinu á fimmtudag.
Samtalið Alþingiskosningar 2024 Alþingi Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur (2017-2024) Píratar Tengdar fréttir Kallar eftir umboði þjóðarinnar til breytinga Hún kom eins og óskrifað blað inn í íslensk stjórnmál fyrir alþingiskosningarnar 2021 og var orðin formaður Samfylkingarinnar um ári síðar. Fljótlega varð ljóst að hún var stjórnmálamaður af annarri skúffu en flestir. Hún ferðaðist um landið með opna fundi og upp úr þeim ferðum mótaði hún nýja stefnu fyrir Samfylkinguna sem var nálægt því að þurrkast út í kosningunum 2016. 2. nóvember 2024 08:02 Þakklát fyrir að missa ekki sjónina síðar á ævinni Inga Sæland formaður og stofnandi Flokks fólksins gerir lítið úr væringum innan flokksins nú þegar hún leiðir hann í fjórða sinn í kosningum til Alþingis. Tveir áberandi þingmenn í forystu flokksins, Tómas A. Tómasson í Reykjavíkurkjördæmi norður og Jakob Frímann Magnússon í Norðausturkjördæmi, fengu ekki brautargengi til að leiða flokkinn í kjördæmum sínum. 26. október 2024 08:02 Formaður Framsóknar segir ríkisstjórnina hafa talað sjálfa sig niður Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefur lagt sjálfan sig að veði í komandi alþingiskosningum með því að taka annað sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Þar með baráttusætið því flokkurinn hefur ekki mælst með mann inni úr kjördæminu í nýjustu könnunum. 19. október 2024 08:02 Íslendingar eiga ekki að aðlaga sig innflytjendum heldur öfugt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að vogunarsjóðir hafi hótað honum þegar hann var forsætisráðherra vegna þess að hann vildi láta sjóðina taka skellinn af falli íslensku bankanna. 10. október 2024 22:02 Þorgerður Katrín: Enginn ráðskonurass undir fólki í Viðreisn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er keppniskona með mikla reynslu af stjórnmálum og er kominn í hlaupaskóna fyrir næstu alþingiskosningar. Hún segir engann „ráðskonurass undir fólki í Viðreisn," sem taki almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Þegar Benedikt Jóhannesson, aðalhvatamaður að stofnun Viðreisnar og fyrsti formaður flokksins, sagði af sér formennskunni aðeins sautján dögum fyrir kosningarnar 2017, stökk Þorgerður Katrín upp í brú á þessu nýsjósetta skipi í ólgusjó íslenskra stjórnmála og kom því í höfn. 5. október 2024 08:00 Brotthvarf Katrínar hafði mikil áhrif Svandís Svavarsdóttir er staðráðin í að Vinstrihreyfingin grænt framboð nái fulltrúum á þing í næstu alþingiskosningum þótt kannanir að undanförnu sýni að þar verði á brattan að sækja. Í Samtalinu á Vísi á fimmtudag fór hún yfir erindi hreyfingarinnar, stjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn í sjö ár og hvaða mál það eru sem hún telur mikilvægt að ná í gegn á Alþingi fyrir kosningar. 28. september 2024 08:01 Maður margra storma íhugar stöðu sína Bjarni Benediktsson hefur í fyrsta sinn opinberlega greint frá því að hann íhugi nú stöðu sína eftir fimmtán ár í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins. Hann geri sér grein fyrir að dagur ákvörðunar renni upp innan hálfs árs, eða fyrir landsfund flokksins sem fram fer um mánaðamótin febrúar-mars á næsta ári. Ef til vill væri kominn tími til að hleypa nýju blóði inn í forystu flokksins. 21. september 2024 08:00 Mest lesið Fengu tæpar fimm og sex milljónir króna í tvöföldum launagreiðslum Innlent Finnst of langt gengið í glæpavæðingu í umfjöllun um Carbfix Innlent Viðbúin því að fylgjendum fækki í kjölfar TikTok-banns Innlent Undrast sinnuleysi forvera sinna og vill lagabreytingar Innlent Ungmenni nota tálbeituaðferðir til að ráðast á meinta níðinga Innlent Starfsmanni ÍSÍ dauðbrá þegar hún mætti til vinnu Innlent Starfsmaður frá Filippseyjum syngur og syngur á Selfossi Innlent Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að breikka faðminn og vera hlýrri Innlent Meinað að heimsækja fjölskylduna því hann var skyndilega kominn á bannlista Innlent Reyndi að stinga af á bíl og svo á hlaupum Innlent Fleiri fréttir Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að breikka faðminn og vera hlýrri Reyndi að stinga af á bíl og svo á hlaupum Fengu tæpar fimm og sex milljónir króna í tvöföldum launagreiðslum Viðbúin því að fylgjendum fækki í kjölfar TikTok-banns Finnst of langt gengið í glæpavæðingu í umfjöllun um Carbfix Kviknaði í gámi í byggingarsvæði við gamla Orkuhúsið Undrast sinnuleysi forvera sinna og vill lagabreytingar Starfsmaður frá Filippseyjum syngur og syngur á Selfossi Ungmenni nota tálbeituaðferðir til að ráðast á meinta níðinga Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar Stórhættulegar tálbeituaðgerðir ungmenna á samfélagsmiðlum Hefja undirbúning verkfalla í framhaldsskólum Taka sýni úr mink sem fannst dauður í Vatnsmýri Starfsmanni ÍSÍ dauðbrá þegar hún mætti til vinnu Aflýsa óvissustigi vegna Bárðarbungu Sér rautt vegna ærslabelgs fyrir framan húsið sitt „Þarna náum við að svæla allt upp á yfirborðið“ Börnin sem talin voru í hættu komu í leitirnar á Suðurnesjum Þing verður sett eftir rúman hálfan mánuð Rannsaka ólöglegt fiskeldi veiðifélags í Borgarfirði Tveir handteknir í fíkniefnamáli fyrir austan Fimm tóku fyrstu skóflustunguna að Borgarlínu Hótaði að kveikja í sambýliskonu og stjúpsyni Skóflustunga tekin að Fossvogsbrú og bandarísk börn sem fundust á Íslandi Kannast ekki við að vera látinn Mikil hálka þegar banaslysið varð Aktivistahópurinn Öfgar er hættur Segir ríkið verða að standa við gerða samninga um borgarlínu Meinað að heimsækja fjölskylduna því hann var skyndilega kominn á bannlista Sannfærð um að nýtt bókunarkerfi leysi vandann Sjá meira
Kallar eftir umboði þjóðarinnar til breytinga Hún kom eins og óskrifað blað inn í íslensk stjórnmál fyrir alþingiskosningarnar 2021 og var orðin formaður Samfylkingarinnar um ári síðar. Fljótlega varð ljóst að hún var stjórnmálamaður af annarri skúffu en flestir. Hún ferðaðist um landið með opna fundi og upp úr þeim ferðum mótaði hún nýja stefnu fyrir Samfylkinguna sem var nálægt því að þurrkast út í kosningunum 2016. 2. nóvember 2024 08:02
Þakklát fyrir að missa ekki sjónina síðar á ævinni Inga Sæland formaður og stofnandi Flokks fólksins gerir lítið úr væringum innan flokksins nú þegar hún leiðir hann í fjórða sinn í kosningum til Alþingis. Tveir áberandi þingmenn í forystu flokksins, Tómas A. Tómasson í Reykjavíkurkjördæmi norður og Jakob Frímann Magnússon í Norðausturkjördæmi, fengu ekki brautargengi til að leiða flokkinn í kjördæmum sínum. 26. október 2024 08:02
Formaður Framsóknar segir ríkisstjórnina hafa talað sjálfa sig niður Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefur lagt sjálfan sig að veði í komandi alþingiskosningum með því að taka annað sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Þar með baráttusætið því flokkurinn hefur ekki mælst með mann inni úr kjördæminu í nýjustu könnunum. 19. október 2024 08:02
Íslendingar eiga ekki að aðlaga sig innflytjendum heldur öfugt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að vogunarsjóðir hafi hótað honum þegar hann var forsætisráðherra vegna þess að hann vildi láta sjóðina taka skellinn af falli íslensku bankanna. 10. október 2024 22:02
Þorgerður Katrín: Enginn ráðskonurass undir fólki í Viðreisn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er keppniskona með mikla reynslu af stjórnmálum og er kominn í hlaupaskóna fyrir næstu alþingiskosningar. Hún segir engann „ráðskonurass undir fólki í Viðreisn," sem taki almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Þegar Benedikt Jóhannesson, aðalhvatamaður að stofnun Viðreisnar og fyrsti formaður flokksins, sagði af sér formennskunni aðeins sautján dögum fyrir kosningarnar 2017, stökk Þorgerður Katrín upp í brú á þessu nýsjósetta skipi í ólgusjó íslenskra stjórnmála og kom því í höfn. 5. október 2024 08:00
Brotthvarf Katrínar hafði mikil áhrif Svandís Svavarsdóttir er staðráðin í að Vinstrihreyfingin grænt framboð nái fulltrúum á þing í næstu alþingiskosningum þótt kannanir að undanförnu sýni að þar verði á brattan að sækja. Í Samtalinu á Vísi á fimmtudag fór hún yfir erindi hreyfingarinnar, stjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn í sjö ár og hvaða mál það eru sem hún telur mikilvægt að ná í gegn á Alþingi fyrir kosningar. 28. september 2024 08:01
Maður margra storma íhugar stöðu sína Bjarni Benediktsson hefur í fyrsta sinn opinberlega greint frá því að hann íhugi nú stöðu sína eftir fimmtán ár í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins. Hann geri sér grein fyrir að dagur ákvörðunar renni upp innan hálfs árs, eða fyrir landsfund flokksins sem fram fer um mánaðamótin febrúar-mars á næsta ári. Ef til vill væri kominn tími til að hleypa nýju blóði inn í forystu flokksins. 21. september 2024 08:00