„Það er búið að vera fólk úti langt fram eftir nóttu og byrjaði svo snemma í morgun að leita við Bíó Paradís,“ segir Eygló Anna Guðlaugsdóttir, sjálfboðaliði hjá Dýrfinnu, samtökum sem sérhæfa sig í leit að týndum gæludýrum.
Fréttir af hvarfi Diegos komu fram í gær, en í færslu Dýrfinnu á Facebook kemur fram að Diego hafi verið tekinn úr A4 í Skeifunni, þar sem hann heldur mikið til, milli 18:30 og 19 í gærkvöldi. Um svipað leyti hafi tveir sjónarvottar séð manneskju fara með köttinn upp í strætó númer 14. Þá hafi fengist staðfest frá strætóbílstjóra að viðkomandi hafi farið út við Bíó Paradís á Hverfisgötu.
Eygló Anna segir leit hafa hafist um leið og fyrstu fréttir af hvarfi Diegos bárust. Ekki liggi fyrir hver hafi numið hann á brott.
„En ég veit að myndefnið er komið inn á borð lögreglu.“
Vitnum beri ekki saman
Vonir standi til að viðkomandi gefi sig fram og skili kettinum. Fjölskylda Diegos sé í öngum sínum og vilji fá hann heim sem fyrst, rétt eins og aðrir aðdáendur hans sem telja á sautjánda þúsund, ef miðað er við fjölda meðlima í Facebook-hópi tileinkuðum Diego.
„Vitnum ber ekki saman um hvort þetta hafi verið kona eða karl. Við erum með grófa lýsingu á einstaklingnum, en við höfum sjálfar ekki fengið myndefnið úr myndavélunum. Lögreglan er með það,“ segir Eygló Anna.
Ekki í fyrsta sinn sem leitað er að Diego
Diego er heimilsköttur, sem hefur ítrekað gert sig heimakominn í verslun Hagkaupa og A4 í Skeifunni. Fyrir vikið hefur hann vakið mikla athygli, og sennilega er vöntun á þekktari ketti hér á landi í dag.
Eygló Anna segir hvarf hans hafa vakið jafn mikla athygli og raun ber vitni einmitt vegna þess hve þekktur hann er orðinn.
„Það er ekki langt síðan það var keyrt á hann fyrir utan Hagkaup, þegar stór leit fór í gang við að finna hann og koma honum undir læknishendur. Þetta er enginn venjulegur kisi.“
Eygló Anna segist vona að Diego sé heill á húfi, hvar sem hann er, og fái mat og vatn.
„Við viljum bara koma með þau skilaboð til þess sem tók hann að hann getur skilað honum, hvort sem er í Hagkaup eða Skeifunni, eða hann vilji hringja í okkur og við getum þá sótt hann. Við vonum innilega að viðkomandi hafi ekki tekið hann til þess að fá fundarlaun í staðinn.“
Fulltrúar Dýrfinnu lofi trúnaði gagnvart viðkomandi. Vonin sé einfaldlega sú að hann komist heim.