Á vef Veðurstofunnar segir að hiti verði á bilinu tvö til sjö stig. Það verður svo vestlægari vindur með éljum á Vestfjörðum seinnipartinn, kólnar og svo snýst í norðaustan 13 til 20 metrum á sekúndu þar í kvöld.
„Á morgun verður norðaustan 8-15 m/s og snjókoma með köflum, en bjart að mestu sunnan heiða. Dregur úr ofankomu síðdegis og kólnar, frost 0 til 10 stig seinnipartinn. Hvessir við suðausturströndina um kvöldið.
Á föstudag verður norðaustan 5-13, en heldur hvassari suðaustantil. Bjartviðri um mest allt land, en skýjað norðaustanlands. Frost 5 til 18 stig, kaldast inn til landins norðantil. Þykknar upp suðaustantil og fer að snjóa um kvöldið.
Á laugardag, kosningadaginn, verður norðaustan hvassviðri eða stormur. Snjókoma á austanverðu landinu, sums staðar talsverð, él norðvestantil, en þurrt að mestu suðvestanlands. Frost 0 til 8 stig.
Dregur úr vindi og ofankomu á sunnudag og herðir á frosti,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Gengur í norðan og norðaustan 10-18 m/s. Snjókoma með köflum, en þurrt að mestu á suðvestanverðu landinu. Frost 1 til 8 stig. Úrkomulítið á landinu um kvöldið, herðir á frosti og hvessir við suðausturströndina.
Á föstudag: Norðaustan 5-13, en 13-18 við suðausturströndina. Þurrt og bjart veður á vestanverðu landinu. Skýjað austantil og fer að snjóa þar undir kvöld. Frost 4 til 16 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.
Á laugardag: Norðaustan og norðan 10-15 m/s, en 15-20 austantil á landinu. Snjókoma á Austfjörðum, Austurlandi og Norðausturlandi. Él á Norðvesturlandi og Vestfjörðum. Yfirleitt úrkomulaust sunnan heiða. Frost víða 3 til 8 stig.
Á sunnudag (fullveldisdagurinn): Norðan 5-10, en 10-15 austanlands. Dálítil él á Norður- og Austurlandi, en víða þurrt og bjart annars staðar. Frost 4 til 12 stig. Lægir um kvöldið, styttir upp og herðir á frosti.
Á mánudag: Vaxandi sunnanátt, þykknar upp og hlýnar á sunnan- og vestanverðu landinu með dálítilli snjókomu og síðar rigningu. Breytileg átt, þurrt og kalt norðaustantil, en dregur hægt úr frosti.
Á þriðjudag: Útlit fyrir suðlæga átt. Rigning eða slydda, en lengst af þurrt norðaustantil. Hiti um eða undir frostmarki.