Ef það er eitthvað fast í hendi í þessu lífi þá er það að ár hvert um vetur virðist spretta upp umræða um vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar. Sá tími er runninn upp en í gær baðst borgin velvirðingar á hálkuaðstæðum sem stafa af því að „röð veðurfræðilegra atvika orsakaði það að erfiður klaki myndaðist á stígakerfinu“ líkt og segir í tilkynningu.
„Eins og sést núna þá hefur verið hálka undanfarna daga og hérna megin þar sem ég bý þar er staðan svona eins og sést en hinu megin við götuna þar er allt hreint,“ segir Gylfi Garðarson, íbúi í Vesturbæ Reykjavíkur.
Það er vegna þess að undir gangstétt hinu megin við götuna er snjóbræðslukerfi og því engin hálka á stéttinni, líkt og sést í sjónvarpsfréttinni. Engu að síður kom bíll frá borginni og saltaði auða stéttina í morgun. Gylfi segir aðra sögu að segja af gangstéttinni hinu megin við götuna. Þar er snjór og mikil hálka en bíll borgarinnar hvorki saltaði stéttina né ruddi snjóinn þar í morgun.
„En svo sjáum við hann hins vegar bruna á góðri ferð hér hinu megin því það er svo auðvelt. Þar er enginn snjór eða klaki.“
Um viðvarandi vanda sé að ræða sem íbúar hafi kvartað undan í mörg ár.
„Já, það er búið að reyna ýmislegt... bæði á samfélagsmiðlum og hafa samband beint við viðeigandi stofnanir en það virðist ekki ná í gegn.“
Ástandið á Grenimel virðist ekki einsdæmi. Sama sjón er í næstu götum auk þess sem íbúi í miðborginni kvartaði undan sambærilegu í íbúahópi í morgun og annar við Ásvallagötu.

Yfirlæknir á bráðamóttökunni segist aldrei hafa séð annan eins fjölda hálkuslysa og nú.
„Staðan er þung á bráðamóttökunni. Hér komu síðasta sólarhringinn um sextíu einstaklingar út af hálkuslysum sem er það mesta sem við höfum séð hér á þessari deild,“ sagði Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala.

Talsvert sé um beinbrot en nokkuð um að fólk hljóti höfuðhögg. Ýmislegt sé hægt að gera til fyrirbyggja slys.
„Já við erum Íslendingar og ættum að vera búin að læra á hálkuna. Fólk þarf að fara varlega, nota mannbrota en ég held að heimili, einstaklingar og fyrirtæki ættu að huga að hálkuvörnum hver í sínu umhverfi.“