Árið 2025 er heilagt ár (lat. iubilaeus) þar sem kaþólikkum gefst færi á að ganga inn um helgar dyr Péturskirkju sem eru vanalega lokaðar aðkomufólki. Pílagrímar sem ferðast til Vatíkansins á þessu fagnaðarári hljóta sérstakt syndaaflát.
Fagnaðarár kaþólskra manna ber að garði á 25 ára fresti. Hefðin á rætur sínar að rekja til þriðju Mósebókar þar sem kveðið er á um að sérstakt fagnaðarár beri upp á fimmtíu ára fresti. Árið 1300 innleiddi Bónifasíus áttundi páfi slíkt fagnaðarár og haldið hefur verið upp á það á fimmtíu eða 25 ára fresti síðan.
Í aðfangadagshómilíu sinni gerði páfinn stríð og átök aftur að umfjöllunarefni sínu. Hann vakti mikla athygli í jólaávarpi sínu á síðasta ári fyrir að fordæma innrás Ísraels í Palestínu. Frans páfi flytur jólaávarp sitt í hádeginu í dag.
„Við leiðum hugann að stríðum, börnum sem skotin hafa verið með vélbyssum, sprengjum vörpuðum á skóla og sjúkrahús,“ sagði páfinn.
Undirbúningur fyrir fagnaðarárið sem hófst í nótt hefur lengi staðið yfir í Rómarborg. Gert hefur verið við kennileiti borgarinnar líkt og Trevíbrunninn og Engilsbrú og hafa stræti og torg verið þrifin. Gert er ráð fyrir stöðugum straumi ferðamanna út árið næsta.