Innlent

Frestur til að skila inn til­lögum rennur út í dag

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þriggja manna hagræðingarhópur hefur verið skipaður.
Þriggja manna hagræðingarhópur hefur verið skipaður. Vísir/Vilhelm

Frestur til að leggja til hagræðingartillögur í samráðsgátt stjórnvalda rennur út á miðnætti. Hátt á fjórða þúsund tillaga hafa þegar borist.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kallaði eftir sparnaðarráðum í rekstri ríkisins í Samráðsgátt stjórnvalda í upphaf árs og fóru tillögurnar strax að hrannast inn. Fram kom í lýsingu gáttarinnar að árinu í ár sé áætlað að útgjöld íslenska ríkisins verði um 1.550 milljarðar króna eða 16 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Tillögurnar sem hafa borist eru jafnmismunandi og þær eru margar. Meðal þeirra er að Ísland gangi úr Atlantshafsbandalaginu, fækka sendiráðum og stofnunum og aðstoðarmönnum ráðherra. Margar tillögurnar snúa einnig að rekstri Ríkisútvarpsins eða jafnvel tilvist þess. Flestir velja þó að gera tillögur sínar ekki aðgengilegar almenningi.

Kristrún Frostadóttir hefur sagst vongóð um að margar gagnlegar tillögur berist í gáttina og að almenna þekkingin reynist gjarnan vel.

„Okkur finnst skipta máli að eiga víðtækt samráð,“ hefur Kristrún sagt. Ríkisstjórnin ætlar að vinna árið 2025 eftir samþykktu fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar en hefur farið mikinn í vangaveltum um hagræðingu.

Fram hefur einnig komið að tillögurnar verði greindar með gervigreind í fyrsta fasa. Þá hefur þegar verið skipaður þriggja manna hagræðingarhópur sem taki hugmyndirnar allar saman.


Tengdar fréttir

Metfjöldi sparnaðarráða til nýrrar ríkisstjórnar

Sparnaðarráðum rignir inn í Samráðsgátt stjórnvalda eftir að forsætisráðherra kallaði í dag eftir tillögum frá almenningi, fyrirtækjum og hagsmunaaðilar um hvar og hvernig megi hagræða í rekstri ríkisins. Forsætisráðherra býst við mörgum gagnlegum ábendingum enda hafi hún góða reynslu af slíku samráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×