Efnt var til verkfallsaðgerðanna í október síðastliðnum en þá lögðu kennarar í níu skólum niður störf, meðal annars á leikskólunum Holti í Reykjanesbæ, Drafnarsteini í Reykjavík, Ársölum á Sauðárkróki og Leikskóla Seltjarnarness.
Aðgerðunum var frestað í nóvember eftir samþykkt tillögu ríkissáttasemjara en deilan virðist enn í hnút og viðbúið að verkföll hefjist að nýju 1. febrúar næstkomandi að óbreyttu.
Mál foreldranna gegn KÍ hefur vakið nokkrar umræður og sitt sýnist hverjum.
Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, sagði til að mynda á dögunum að kæran væri aðför að kennurum barna þeirra.
„Hér er verið að gera tilraun til að svipta kennurum þeim lagalega neyðarrétti að geta barist fyrir bættum kjörum og þá framtíðar afkomu sinnar og sinna sem og fyrir leikskólakerfinu öllu sem líður alla daga út um allt land vegna langvarandi skorts á fagfólki,“ sagði Haraldur í skriflegum svörum við fyrirspurn fréttastofu og spurði að því hvernig umræddir foreldrar ætluðu að horfa í augu kennara eftir þetta.
Kristófer Már Maronsson svaraði Haraldi fullum hálsi í aðsendri grein og sagðist ekki myndu eiga í neinum vandræðum með það.
„Stefnan er nefnilega engin aðför gegn kennurum, ég væri ekki tilbúinn að taka þátt í slíkri aðför. Stefnunni fylgir heldur engin heift foreldra í garð kennara,“ sagði Kristófer. Málið snérist um að láta skera úr um lögmæti aðgerðanna.
„Rétturinn til verkfalls er skýr, en það er ekki sama hvernig vopninu er beitt. Krafan er að vopninu sé beitt með réttmætum hætti. Ég tel ekki að KÍ hafi ætlað sér að brjóta lög, verði það niðurstaðan. Það er margoft sem venjulegt fólk brýtur lög án ásetnings, í góðri trú. Gleymum því ekki að enginn er fullkominn - ekki einu sinni verkalýðsleiðtogar.“