Íslenski boltinn

Einar heim í Hafnar­fjörðinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Einar Karl lék síðast með Stjörnunni í efstu deild.
Einar Karl lék síðast með Stjörnunni í efstu deild. Vísir/Diego

Einar Karl Ingvarsson hefur samið við FH um að leika með félaginu í Bestu deild karla í fótbolta í sumar. Hann snýr á heimaslóðir.

Einar Karl hefur leikið fyrir Grindavík í Lengjudeildinni undanfarin ár og var með samningstilboð frá félaginu. Hann hefur hins vegar samið við uppeldisfélagið. Hann var einnig orðaður við Val og Aftureldingu.

Einar Karl hefur æft í Hafnarfirðinum undanfarið og hefur nú fengið félagsskipti til FH. Hann er 31 árs miðjumaður og á fjölda leikja að baki í efstu deild. Hann er uppalinn í FH en lék með Val frá 2015 til 2020 og Stjörnunni sumrin 2021 og 2022.

Einar Karl er fjórði leikmaðurinn sem FH semur við fyrir komandi átök. Bragi Karl Bjarkason kom frá ÍR og Birkir Valur Jónsson frá HK. Þá fékk FH markvörðinn Mathias Rosenörn frá Stjörnunni í vikunni.

Þá hafa þeir Logi Hrafn Róbertsson, Ólafur Guðmundsson, Vuk Oskar Dimitrijevic, Finnur Orri Margeirsson og Robby Wakaka yfirgefið félagið í vetur.

FH hafnaði í sjötta sæti Bestu deildarinnar síðasta sumar, neðsta sæti efri hlutans með 34 stig. Liðið fékk aðeins eitt stig í síðustu leikjunum fimm eftir að deildinni var skipt upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×