Í tilkynningu Kennarasambandsins segir að það skipti miklu máli fyrir alla þá sem deilan snertir að afstaða fulltrúa sveitarfélaganna sé algerlega ljós. Í ljósi ummæla Heiðu Bjargar um að hún hefði stutt tillöguna væri brýnt að aðrir fulltrúar greindu líka frá afstöðu sinni.
„Í ljósi þeirrar grafalvarlegu stöðu sem er uppi í kjaradeilunni skiptir það miklu máli, fyrir alla þá sem deilan snertir, að afstaða fulltrúa þeirra sveitarfélaga sem eiga sæti í stjórn Sambandsins sé algerlega ljós.“
Kennarasambandið lýsir jafnframt yfir vanþóknun sinni á yfirlýsingu sveitarfélaganna, sem sögðust hafa kynnt ríkissáttasemjara að þeim litist ekki á innanhústillöguna á fundi sem fór fram í fyrradag. Kennarasambandið segir að þetta séu ósannindi.
Sjá: Voru búin að segja að þeim hugnaðist ekki tillaga Ástráðs
Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins sagði í gærkvöldi að höfnun samninganefndar sveitarfélaganna á tillögunni hefði ekki með pening að gera heldur pólitík. Sellur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks innan sambandsins hefðu komið í veg fyrir að samningar næðust.