Sport

„Fær vonandi stór­brotinn endi á stór­brotnum ferli.“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tekur að öllum líkindum einn dans enn.
Tekur að öllum líkindum einn dans enn. Kara Durrette/Getty Images

Forráðamenn Kansas City Chiefs í NFL-deildinni reikna með að ofurstjarnan Travis Kelce taki eitt ár í viðbót áður en hann leggur skóna á hilluna. Það má því reikna með fleiri fréttum af poppprinsessunni Taylor Swift á Arrowhead-vellinum í Kansas á næstu leiktíð.

Eftir að Kansas City Chiefs stóð uppi sem sigurvegari NFL-deildarinnar í febrúar á síðasta ári lagðist Kelce undir feld þar sem samningur hans við meistarana var á enda. Hann fékk í kjölfarið tveggja ára samning sem gerði hann að launahæsta innherja NFL-deildarinnar.

Hinn 35 ára Kelce fór alla leið í Ofurskálina með Chiefs í ár þar sem liðið mátti þola stórt tap gegn Philadelphia Eagles. Kelce ásamt öðrum leikmönnum átti erfitt uppdráttar í leiknum og hefur hann ekki enn gefið út hvort hann taki slaginn með Chiefs á næstu leiktíð.

The Athletic greinir nú frá því að forráðamenn félagsins séu handvissir um að Kelce verði á sínum stað þegar Chiefs reynir að komast í Ofurskálina í sjötta sinn á síðustu sjö árum.

„Vonandi hættir hann sem meistari og fær vonandi stórbrotinn endi á stórbrotnum ferli,“ sagði Brett Veach, framkvæmdastjóri Chiefs, um framtíð Kelce.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×