Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Sambandinu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um launamál formannsins, sem byggði á svörum þeirra til fjölmiðla. Sambandið harmar að hafa sent frá sér rangar upplýsingar um kjör stjórnarmanna.
Fram kom að laun formannsins hefðu hækkað um 170 prósent á einungis tveimur árum, og á sama tíma hefðu litlar breytingar orðið á störfum hans. Verkalýðsleiðtogar fordæmdu launahækkunina og sögðu ekki hægt að réttlæta hana með neinu móti.
Fréttastofu tókst ekki að ná í Heiðu Björgu Hilmarsdóttur, borgarstjóra og formann Sambandsins í gær, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Launin hærri 2023 en áður hefur komið fram
Í yfirlýsingu Sambandsins kemur fram að laun formannsins hafi verið mun hærri árið 2023 en áður hefur komið fram. Í upphaflegu svari Sambandsins hafi staðið að launin hefðu verið 285.087 á mánuði, en í þeirri tölu hefði fast yfirvinnukaup ekki verið tekið með í myndina.
Mánaðarlegar yfirvinnugreiðslur vegna aukinna verkefna og fundarhalda hafi numið 296.080 krónum á mánuði árið 2023, og heildarlaun formannsins því 581.167 krónur á mánuði.

Í yfirlýsingunni segir breytingar hafi tekið gildi á launakerfi formannsins árið 2024. Fyrir breytingarnar hafi formaður fengið tvöföld laun fyrir stjórnarsetu auk yfirvinnugreiðslna, sem hafi verið að jafnaði 40 yfirvinnutímar á mánuði.
Frá og með árinu 2024 sé engin yfirvinna greidd fyrir aukavinnu eða aukafundi formannsins.
Yfirvinnugreiðslurnar hafi ekki verið teknar saman í þær tölur sem Sambandið sendi frá sér upphaflega.
Þá segir að mikil aukning hafi orðið í fundarhöldum Sambandsins undanfarin ár. Áður hafi um 10 - 11 fundir verið haldnir á ári, en árið 2023 hafi þeir verið 24, og gert sé ráð fyrir að fundir á árinu 2025 verði um 26.
„Til viðbótar við stjórnarfundi fundar formaður reglulega með starfsfólki Sambandsins, sem og með bæjarstjórum og fulltrúum sveitarfélaga um land allt. Formaður situr einnig einnig fjöldan allan af ráðstefnum þar sem flutt eru ávörp í nafni Sambandsins. Að auki á formaður sæti í Þjóðhagsráði og Samstarfsráði ríkis og sveitarfélaga, þar sem unnið er að stefnumálum sveitarfélaga.“