Valur Páll Eiríksson spurði Snorra út í félagsskiptin á æfingu landsliðsins í gær en Haukur verður í eldlínunni í dag þegar íslensku strákarnir geta tryggt sig inn á Evrópumótið.
„Ég sem landsliðsþjálfari er mjög ánægður með þau og held að þetta sé hárrétt skref hjá honum að færa sig í Rhein-Neckar Löwen og í þessa deild. Ég kom inn á það og ræddi það líka við Hauk,“ sagði Snorri Steinn.
Haukur hefur verið að spila með Meistaradeildarliði Dinamo Búkarest en lék áður með pólska liðinu Kielce í fjögur ár. Haukur verður 24 gamall í næsta mánuði.
„Þetta er náttúrulega bara hans ákvörðun og hans ferill sem hann er að taka ákvörðun um. Mér finnst hann hafa valið rétt og er kominn í það umhverfi sem ég vil sjá hann í,“ sagði Snorri Steinn.
„Ég vil sjá sem flesta leikmenn sem eru í landsliðinu vera í svona umhverfi. Ég er ánægður fyrir hans hönd og spenntur að sjá hvernig honum reiðir að þar,“ sagði Snorri Steinn.
„Ef hann er heill heilsu og í formi þá held ég að það verði mjög gaman að fylgjast með honum í Rhein-Neckar Löwen,“ sagði Snorri Steinn eins og sjá má hér fyrir neðan.
Snorri Steinn sjálfur þekkir vel til hjá Rhein-Neckar Löwen því hann spilaði með liðinu tímabilið 2009–2010.