Veður

Hvassir vind­strengir á Snæ­fells­nesi en milt loft yfir landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Milt loft er yfir landinu með hita að þrettán stigum þegar best lætur.
Milt loft er yfir landinu með hita að þrettán stigum þegar best lætur. Vísir/Vilhelm

Víðáttumikil hæð er nú suðaustur af landinu og teygir sig yfir landið, en á vestur við Grænland er lægðardrag, sem saman valda suðaustankalda eða -strekkingi og smávætu suðvestanlands fram eftir degi.

Á vef Veðurstofunnar segir að annars verði hægari vindar og víða léttskýjað. Á norðanverðu Snæfellsnesi eru hins vegar mjög hvassir vindstrengir fram eftir degi og eru ökumenn því hvattir til að fara gætilega þar.

Milt loft er yfir landinu með hita að þrettán stigum þegar best lætur, en sums staðar næturfrost inn til landsins.

„Um helgina verður hæðin væntanlega komin nær Noregi, en beinir enn til okkar sunnan- og suðaustanáttum. Skýjað og lítilsháttar væta öðru hvoru sunnan- og vestantil, en annars léttskýjað og hlýnar heldur í veðri. Spáð er að bæti talsvert í vind og úrkomu um og eftir miðja næstu viku,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag, sunnudag, mánudag og þriðjudag: Suðaustlæg átt, 8-15 m/s vestantil, en annars mun hægara. Skýjað víða um land og súld eða rigning öðru hvoru við suður- og vesturströndina, en bjartviðri norðaustanlands. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast á Norður- og Austurlandi.

Á miðvikudag og fimmtudag: Útlit fyrir stífa suðvestanátt með rigningu, en þurrviðri norðaustanlands. Áfram milt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×