Breskir fjölmiðlar greina frá þessu og vísa í gögn frá lögreglunni. Breska sjónvarpsstöðin Channel 4 sýndi árið 2023 heimildarmynd þar sem komu fram ásakanir um kynferðisbrot og nauðgun á hendur Brand. Lögregla hefur rannsakað málin og fleiri til viðbótar og nú gefið út ákæru á hendur Brand.
Umræddar árásir eiga að hafa átt sér stað á árunum 1999 og 2005. Brand hefur ekki tjáð sig um ákærurnar en hefur áður neitað ásökunum um kynferðisbrot og nauðgun.
Reiknað er með að aðalmeðferð hefjist í máli hins 49 ára Russell Brand 2. maí næstkomandi en brotin eiga að hafa verið gegn fjórum mismunandi konum.
Í ákæru kemur fram að hann sé sakaður um:
- Að hafa nauðgað konu í Bournemouth árið 1999
- Ráðist kynferðislega á konu í Westminster í London árið 2001
- Nauðgað konu í Westminster-hverfinu í London árið 2004
- Ráðist kynferðislega á konu í Westminster í London á árunum 2004 og 2005
Brand sló í gegn sem uppistandari áður en hann gerði garðinn frægan í sjónvarpi og útvarpi. Þá hefur hann birst í fjölda kvikmynda, meðal annars Forgetting Sarah Marshall.