Í þættinum Flugþjóðin á Stöð 2 fræðumst við um sögu landnáms íslenska flugfólksins í Lúxemborg. Eiginmennirnir flugu um allan heim og voru oft langdvölum að heiman. Hlutskipti eiginkvennanna varð að halda utan um heimilið og börnin í ókunnu landi.

„Ég var eins og sjómannskona. Hann var alltaf í burtu,“ segir Salvör Þormóðsdóttir.
„Við vorum mikið í burtu fyrstu árin,“ segir eiginmaðurinn Björn Sverrisson, fyrrverandi flugvélstjóri.
„Þeir komu heim kannski eftir þriggja vikna túr í einn sólarhring. Og svo fóru þeir aftur. Maður náði ekki að þvo fötin. Þannig að vorum dálítið mikið svona einar, konurnar á sínum tíma,“ segir Salvör.

Venjulegir íslenskir alþýðustrákar, sem alist höfðu upp á afskekktri eyju í Norður-Atlantshafi, voru farnir að fljúga um allan heim.
„Þetta var algjört ævintýri,“ segir Jóhannes Kristinsson, fyrrverandi flugstjóri.

Flestir litu á starfið í Lúxemborg sem skammtímaverkefni, til tveggja eða í mesta lagi til fimm ára.

Meira en hálfri öld síðar lýsa Íslendingarnir því hversvegna þeir ílentust í Lúxemborg en sneru ekki aftur heim til Íslands.
Hér má sjá ellefu mínútna kafla:
Þetta er fyrri þáttur af tveimur um íslensku flugnýlenduna. Þátturinn verður endursýndur á Stöð í dag, sunnudag, klukkan 17:40.
Seinni þátturinn um Lúxemborgarnýlenduna verður sýndur á Stöð 2 næstkomandi þriðjudagskvöld.
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvar og hvenær sem er.
Hér er kynningarstikla þáttanna: