Erlent

Airbus veðjar á vetni í rafmagnsflugvélum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gert er ráð allt að 100 sætum í flugvélinni og 1.850 kílómetra flugdrægi. Það þýddi að hún gæti þjónað flugleiðinni milli Reykjavíkur og Oslóar.
Gert er ráð allt að 100 sætum í flugvélinni og 1.850 kílómetra flugdrægi. Það þýddi að hún gæti þjónað flugleiðinni milli Reykjavíkur og Oslóar. Airbus/teikning

Ráðamenn Airbus hafa ítrekað þá stefnumörkun sína að koma eitthundrað sæta flugvél knúnu mengunarlausu eldsneyti í arðbært farþegaflug á næsta áratug. Þetta kom fram á árlegum fundi forystumanna Airbus á dögunum.

Þar var sýnd breytt hönnun vetnisflugvélar sem Airbus hafði áður kynnt í verkefni sem kallast ZEROe. Núna er gert ráð fyrir fjórum rafmagnshreyflum á flugvélinni í stað sex hreyfla áður.

Þá hefur tímaramma verkefnisins verið seinkað. Áður var stefnt á að flugvélin yrði komin í almennt farþegaflug árið 2035. Núna er talað um flugvélin fari í notkun eftir miðjan næsta áratug.

Fljótandi vetni yrði dælt á tvo vetnisgeyma. Fjórir efnaraflar um borð, einn fyrir hvern hreyfil, myndu framleiða rafmagn til að knýja hreyflana.Airbus/teikning

Tæknin gengur út á það að flugvélin verði knúin fjórum tveggja megavatta rafmagnshreyflum. Hver hreyfill sé búinn efnarafli sem breyti vetni og súrefni í raforku. Tveir vetnisgeymar með fljótandi vetni verði um borð. Eini útblásturinn yrði mengunarlaus vatnsgufa.

Þetta er samskonar tækni og bandaríska sprotafyrirtæki Universal Hydrogen nýtti fyrir tveimur árum til að fljúga Dash 8-300 flugvél í tilraunaskyni. Hugmyndin er að umbreyta olíuknúnum flugvélum, sem þegar eru notkun, í vetnisknúnar rafmagnsflugvélar. 

Það félag fór hins vegar í þrot síðastliðið sumar þegar því tókst ekki að afla nægilegs fjármagns til frekara þróunarstarfs. Icelandair hafði skoðað slíka lausn til orkuskipta í innanlandsfluginu á Íslandi.

Airbus miðar við að flugvélin geti þjónað allt að 1.000 sjómílna löngum flugleiðum, eða í 1.850 kílómetra fjarlægð. Það þýðir að hún gæti sinnt áætlunarflugi milli Reykjavíkur og þeirra borga í Skandinavíu og á Bretlandseyjum sem næstar eru Íslandi, eins og Bergen, Osló, Glasgow, Manchester og Dublin. Miðað við þessa forsendu vantar lítið upp á að hún kæmist einnig til Kaupmannahafnar og London.

Flugvélin gæti flogið milli Íslands og þeirra borga Skandinavíu og Bretlandseyja sem næstar eru Íslandi.Airbus/teikning

Borgarbúar gætu kannski farið að láta sig dreyma um það að komast á ný í beinu flugi frá Reykjavíkurflugvelli til næstu nágrannalanda, eins og tíðkaðist fram yfir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Að þessu sinni þó með hljóðlátum og mengunarfríum flugvélum á innlendu sjálfbæru eldsneyti.

Önnur lausn sem Icelandair skoðar fyrir innalandsflugið er þessi þrjátíu sæta sænska rafmagnsflugvél: 


Tengdar fréttir

Magnað að sjá bara vatnsgufu úr hreyflinum en enga mengun

Stórri farþegaflugvél, sömu gerðar og Icelandair notar í innanlandsfluginu, hefur í fyrsta sinn í sögunni verið flogið á vetni. Fulltrúi Icelandair var viðstaddur þetta tímamótaflug vestanhafs en þetta er meðal þeirra lausna sem félagið skoðar til orkuskipta í fluginu á Íslandi.

Kynntu rafmagnsflugvélina sem Icelandair hefur pantað

Sænski flugvélaframleiðandinn Heart Aerospace kynnti í dag fyrsta tilraunaeintak þrjátíu sæta rafmagnsflugvélar. Hún gæti orðið fyrsta rafknúna flugvélin í innanlandsflugi hérlendis en Icelandair hefur skráð sig fyrir fimm eintökum.

For­setinn fyrstur far­þega í raf­magns­flug­vél

Blað var brotið í íslenskri flugsögu í gær með fyrsta farþegaflugi rafmagnsflugvélar hér á landi. Forseti Íslands og forsætisráðherra voru fyrstu farþegar vélarinnar og segja flugið marka vatnaskil í vegferð Íslands í átt að hreinni orku í loftsamgöngum. 

Flugvél flýgur í fyrsta sinn í sögunni á íslenskri raforku

Fyrsta rafmagnsflugvél Íslendinga hóf sig til flugs í fyrsta sinn á Íslandi nú síðdegis frá flugvellinum á Hellu á Rangárvöllum. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem flugvél flaug á íslenskri orku en ekki innfluttu jarðefnaeldsneyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×