Upp­gjörið: FH - Fram 24-27 | Fram komið yfir í ein­vígi sínu við FH

Hjörvar Ólafsson skrifar
Reynir Þór Stefánsson var markahæsti leikmaður vallarins í kvöld. 
Reynir Þór Stefánsson var markahæsti leikmaður vallarins í kvöld.  Vísir/Anton Brink

Fram hafði betur, 24-27, þegar liðið mætti FH í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta í Kaplarika í kvöld.

Jafnt var á öllum tölum framan af fyrri hálfleik en um miðjan hálfleikinn skellti Arnór Máni Daðason, markvörður Fram, búri sínu í lás og lagði grunn að því að lið hans kæmist 4-7 yfir.

Frammarar með Reyni Þór Stefánsson og Dag Fannar Möller í broddi fylkingar héldu áfram tveggja til þriggja marka forskoti út hálfleikinn en staðan í hálfleik var 12-15 Fram í vil.

Jakobi Martin Ásgeirssyni, leikmanni FH, var vísað af velli með beinu rauðu spjaldi undir lok fyrri hálfleiks fyrir að ýta á eftir Kjartani Þór Júlíussyni í varnarleik sínum.

Gestirnir úr Úlfarsárdalnum héldu áfram að auka við forskot sitt í upphafi seinni hálfleiks og staðan var 13-18 þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum.

Fram gerði betur án Reynis en síðast

Vörn Framliðsins var feykilega sterk á þeim kafla og heimamenn komust hvorki lönd né strönd. Leikmenn FH tóku á sig rögg um miðbik seinni hálfleiks og Ásbjörn Friðriksson leiddi þá endurkomu. Ásbjörn jafnaði metin í 20-20 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður og stemmingin var með heimaliðinu.

Birkir Fannar Bragason sem leysti Daníel Frey Andrésson af hólmi í marki FH-liðsins varði sömuleiðis vel á þessum tíma og hjálpaði til við að koma sínum mönnum inn í leikinn.

Næstu mínúturnar einkennudst af gríðarlegri spennu þar sem munurinn hélst í kringum eitt mark. Leikmenn beggja liða þurftu að hafa mikið fyrir hverju marki sem skorað var á þeim tímapunkti og taugarnar þandar til hins ítrasta.

Reynir Þór var aðalsprautan í því að ná upp þriggja marka forskoti á nýjan leik 21-24 en í stöðunni 22-24 fékk hann rautt spjald fyrir að sparka til Birgis Más Birgissonar eftir baráttu þeirra um að vinna boltann.

Frammarar, minnugir þess að hafa misst unnin leik úr höndunum í deildarleik liðanna fyrr í vetur, náðu að halda sjó án leikstjórnanda síns og besta leikmanns á lokamínútum leiksins og fóru að lokum með þriggja marka sigur af hólmi.

Fram er þar með komið 1-0 yfir í rimmu liðanna um að tryggja sér farseðil í úrslitaeinvígið gegn annað hvort Val eða Aftureldingu sem eigast við í hinu undanúrslitaviðureigninni. Hafa þarf betur í þremur leikjum til þess að komast í úrslitin. Fram og FH leiða saman hesta sína í Lambhagahöllinni í öðrum leik sínum á mánudaginn kemur. 

Einar Jónsson var léttur, ljúfur og kátur að leik loknum.Vísir/Anton Brink

Einar: Fékk flassbakk frá deildarleiknum

„Það er kannski erfitt að greina það svona rétt eftir leik hvað það var nákvæmlega sem skilaði þessu. Mér fannst við hins vegar vera með frumkvæðið frá upphafi og í raun til enda. Það var gríðarlega barátta í mínu liði og áþreifanlegur vilji í að landa þessum sigri,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, sigurreifur.

„Við vorum sjálfum okkur verstir þegar þeir ná að koma sér inn í leikinn og jafna. Ég skal alveg viðurkenna að ég fékk flassbakk frá deildarleiknum þegar Reynir Þór fékk rautt og ég sá fyrir mér að við myndum kasta þessu frá okkur eins og við gerðum án hans í þeim leik,“ sagði Einar þar að auki. 

„Við héldum aftur á móti haus að þessu sinni sem betur fer og aðrir leikmenn stigu upp í fjarveru Reynis Þórs sem hafði verið frábær þar til hann fékk rautt. Við erum komnir 1-0 yfir sem er gott en það er nóg eftir af þessu einvígi. Þetta verða blóðugar baráttur tveggja liða sem eru jöfn að getu og matcha hvort annað vel,“ sagði hann um koamndi leiki liðanna. 

Sigursteinn: Gæti týnt margt til sem vantaði uppá

„Við komumst eiginlega aldrei almennilega í takt við þennan leik og ég gæti staðið hérna og týnt til mjög mörg atriði sem vantaði uppá í okkar leik. Það var bæði í varnarleiknum og sóknarleiknum sem við vorum ekki upp á okkar besta og við munum bara fara í það strax á morgun að kryfja það sem fór úrskeiðis og finna lausnir,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, svekktur. 

„Það var vitað fyrir þetta einvígi að þetta yrðu hörkuleikir tveggja jafnra liða og nú er bara 1-0 og okkar að svara í næsta leik. Við getum eins og áður segir gert margt miklu betur og nú er bara að laga það í næsta bardaga. Til að mynda voru við með allt of marga tapaða bolta bara til að nefna eitthvað eitt,“ sagði Sigursteinn enn fremur. 

„Ég var að vona það þegar við jöfnuðum 20-20 að mómentið væri að snúast í okkar átt. En í takti við það hvernig við spiluðum allan leikinn að mínu mati þá voru þeir sterkari aðilinn þegar mest á reyndi og því fór sem fór. Við kvittum fyrir þetta í Úfarsárdal á mánudaginn,“ saðgi hann um lokakafla leiksins og framhaldið. 

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, sagði fjölmargt hafa vantað upp á hjá sínu liði að þessu sinni. Vísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Í stöðunni 24-26 missti Einar Sverrisson boltann klaufalega og eftir það hvarf von FH-inga um að koma leiknum í framlengingu. Einar hafði spilað vel í vörn FH en þessi tapaði bolti gerði endanlega út um það að FH næði að knýja fram sigur í leiknum. 

Stjörnur og skúrkar

Reynar Þór var markahæstur í liði Fram með átta mörk en þar að auki mataði hann samherja sína með stoðsendingum og fiskaði vítaköst. Meðal annars fann hann Dag Fannar á línunni sem skilaði fimm mörkum auk þess að næla í víta og spila fanta góða vörn. 

Arnór Máni varði á köflum vel í marki Framliðsins og Ívar Logi Styrmisson var öryggið uppmálað af vítalínunni. Annars var það í raun sterkur varnarleikur alls Framvarnarinnar sem var lykillinn að þessum sigri. 

Dómarar leiksins

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu erfiðan leik þar sem hart var barist vel og fá þeir átta í einkunn. Bæði rauðu spjöldin sem litu dagsins ljós voru réttmæt að mínu mati og FH-liðið getur ekki klínt þessu tapi á dómaraparið. 

Stemming og umgjörð

Það var frábær stemming í Kaplakrika í kvöld. Vel mætt á pallana hjá báðum liðum og umgjörðin hjá FH til fyrirmyndar eins og vanalega. Hamborgarnir sem Fannar Freyr Guðmundsson grillaði af sinni alkunnu snilld voru stórkostlegir að vanda. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira