Sport

Fé­lögin vilja ekki knattspyrnukonur með börn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Almuth Schult vann Meistaradeildina með liði Wolfsburg.
Almuth Schult vann Meistaradeildina með liði Wolfsburg. Getty/Boris Streubel

Knattspyrnukonan Almuth Schult vann bæði Ólympíugull með þýska landsliðinu og Meistaradeildina með VfL Wolfsburg. Hún segir fótboltaferil sinn hafa endað allt of snemma vegna þess að evrópsku félögin vilji í raun ekki semja við knattspyrnukonur sem eiga börn.

Hin 34 ára gamla Schult setti fótboltaskóna upp á hillu í mars, þremur mánuðum eftir að samningur hennar við bandaríska félagið Kansas City Current rann út.

Við þekkjum vel sögu Söru Bjarkar Gunnarsdóttir sem barðist fyrir réttindum sínum sem verðandi móður hjá franska stórliðinu Lyon. Schult er samt á því að evrópsku félögin séu ekki komin enn á þann stað sem þau þurfa að vera þegar kemur að barneignum leikmanna.

„Ég tel að félögunum í Evrópu finnist það ekki eðlilegt að knattspyrnukonur eigi börn. Hvort sem að félögin viðurkenni það eða ekki, þetta er bara mitt huglæga mat,“ sagði Almuth Schult í viðtali við Kicker. ESPN segir frá.

„Mörg af þessum félögum halda að það muni þýða vesen og vandræði að vera með mæður í sínu liði en það þarf alls ekki að vera þannig,“ sagði Schult.

Schult telur að hún hefði getið spila eitt eða tvö tímabil í viðbót á hæsta stigi en það að hún sé móðir sé aðalástæðan fyrir því að hún fékk ekki nýjan samning. Einu tilboðin voru um að verða þriðji markvörður liðs.

„Ég var orðin samningslaus eftir aðra meðgöngu mína. Ekkert félag trúði því að ég gæti hjálpað þeimm þrátt fyrir að ég hafi þegar sýnt það og sannað eftir fyrri meðgönguna mína,“ sagði Schult.

Schult vann Meistaradeildina með Wolfsburg árið 2014 og Ólympíugull með þýska landsliðinu í Ríó 2016. Hún eignaðist tvíbura árið 2020 og sitt þriðja barn síðan árið 2023.

„Ferill minn hefði þróast allt öðruvísi hefði ég fengið sama stuðning í Þýskalandi og ég fékk í Bandaríkjunum,“ sagði Schult.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×