Skoðun

Rauðir sokkar á 1. maí

Sveinn Ólafsson skrifar

Þegar þetta er skrifað að morgni 1. maí, eru 55 ár síðan ég gekk niður Laugaveg, fram hjá meðal annars stórri styttu af konu og hópi kvenna sem flestar voru á rauðum sokkum. Nokkrar þær yngstu voru í stuttum pilsum eins og var tíska, þannig að betur mætti sjá sokkana. Ég vorkenndi þeim í vorkuldanum, og sá að þessar konur voru hafðar aftast í göngunni, eiginlega fyrir aftan aðalgönguna. Barnið spyr ekki spurninga um svona mál, en þær vöktu athygli.

Þær voru ótrúlega róttækar, ekki vegna þess að þær kröfðust jafnréttis kynjanna, því það er eins langt frá róttækni og hægt er að hugsa sér, og eins nálægt því að vera það sem alltaf á að gilda, alls staðar. Sama gildir um jöfnuð fólks eftir húðlit, trú, uppruna og öllu öðru sem ekki hefur neitt með manngildi þeirra að gera. Það er ekki róttækni, heldur grundvallargildi.

Róttækni þeirra fólst í því sem þær náðu fram aðeins fimm og hálfu ári síðar, á kvennafrídaginn í október 1975. Þá lögðu konur niður vinnu og fjölmenntu í miðbæ Reykjavíkur. Á aðeins fimm og hálfu ári náðu rauðsokkur og aðrar kvenfrelsiskonur að stíga þetta risaskref, sem breytti þjóðfélaginu. Næstu ár á eftir breyttu miklu í réttindum kvenna, þó að sjálfsögðu hefðu verið stigin stór skref fram að því. Margar raddir sögðu 1975 að jafnrétti væri í raun náð. Ég hef það alltaf í huga þegar ég heyri þessu haldið fram síðan.

Hvers vegna lögðu konur niður vinnu 24. október 1975? Fyrir margar þeirra, eins og móður mína, var þetta afar stuttur „frídagur“, í mesta lagi nokkrir tímar til að fara niður í bæ og mótmæla, og svo heim aftur að elda í karlinn og krakkana, og vinna flest heimilisverkin. Við systkinin vorum reyndar alin upp í að taka okkar hluta af þessum verkum, sem gekk misvel, en ætlunin var að vinnan lenti ekki bara á móðurinni, sem vann fulla vinnu og var auk þess að mennta sig til betri starfa.

Svarið er að verkfall er oft það eina sem dugir til að fá alla til að taka raunverulega eftir hvað þarf að gera. Í fjölda ára hafði stór hluti Íslendinga haldið því fram að hér væri raunverulegt jafnrétti og tal um aukið jafnrétti væri byggt á vitleysu. 24. október 1975 breyttist það allt. Þetta er allt of oft hlutskipti vinnandi fólks, hvort sem það er í launavinnu eða heimastörfum. Það er ekkert hlustað á mál þeirra fyrr en því er fylgt eftir með verkfalli. Hvort sem okkur þykir það betur eða verr, og málflutningur vinnuveitenda sýnir að þeim þykir það verr, þá er það alltof oft nauðsyn en ekki val.

Þessi karl tekur ofan hatt sinn í dag fyrir þeim konum sem stóðu að þessum tveimur viðburðum.

Höfundur er upplýsingafræðingur og stjórnsýslufræðingur, og situr í stjórn Visku stéttarfélags.




Skoðun

Sjá meira


×