Körfubolti

Ólafur baðst af­sökunar eftir leik: „Ég er bara rosa­lega við­kvæmur eins og er“

Siggeir Ævarsson skrifar
Ólafur Ólafsson í baráttu um boltann í leiknum í kvöld.
Ólafur Ólafsson í baráttu um boltann í leiknum í kvöld. Vísir/Anton Brink

Fyrirliði Grindvíkinga átti mjög erfitt eftir tapleikinn á móti Stjörnunni í kvöld í hreinum úrslitaleik um sæti í úrslitaeinvígi Bónus deildar karla í körfubolta.

Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindvíkinga, mætti í viðtal til Andra Más eftir leik og svarið var einfalt þegar hann var spurður hvað sæti helst í honum eftir þetta tap.

„Bara að hafa tapað. Við komum kannski pínu flatir út í byrjun en héngum alltaf í þeim, misstum þá aldrei of langt frá okkur. Komum og jöfnuðum leikinn. Bara nokkur „play“ hérna í lokin, sóknarfrákast og eitthvað sem að voru þeirra. Bara kredit á þá.“

Fórum loksins að hafa samskipti í vörninni

Eftir flata byrjun komust Grindvíkingar smám saman í takt.

„Við vorum að hreyfa okkur bara í vörninni. Fórum loksins að hafa samskipti í vörninni og vorum allir á sömu blaðsíðunni. Vorum að láta boltann flæða, vorum að hreyfa þá og þá fengum við ódýrar körfur. Ég hefði kannski mátt hitta aðeins betur í seinni hálfleik en það er bara svoleiðis.“

Ólafur var síðan beðinn um að fara aðeins yfir síðustu tvær mínútur leiksins.

„Bara tvö hörku góð lið að spila. Við höfðum alltaf trú á því að við gætum unnið og héldum alltaf áfram og komust ansi nálægt því en 50/50 boltarnir þeir duttu þeirra megin í lokin.“

Það urðu einhver læti í leikslok sem Ólafur var í hringiðunni á. Hann átti þó góðar skýringar á því hvað gekk á.

Bara búið að vera erfitt ár

„Ég er bara rosalega viðkvæmur eins og er. Bara búið að vera erfitt ár, eða síðustu tvö ár rosalega erfið. Það hafði ekkert að gera með að ég hafi tapað leiknum. Hann bara hreytti einhverju í mig og var fljótur að hlaupa í burtu þegar ég kom í áttina að honum. Bara fljótur upp, biðst afsökunar á því.“

Andri spurði hann nánar út í þessi síðustu tvö ár og var augljóst að Ólafur átti í fullu fangi með að halda aftur að tárunum.

„Bara erfitt. Stórt skarð sem við misstum í fjölskyldunni. Þetta er bara búið að vera erfitt síðustu tvö ár, rýmingin og svo þegar pabbi deyr. Bara búið að vera erfitt.“

Set sjálfan mig í fyrsta sæti

Hann var að lokum spurður um framhaldið, sem virðist vera nokkuð skýrt en samt kannski ekki.

„Ég er ennþá með samning allavegana. Þannig að ég veit ekki. Bara fara að vinna svolítið í sjálfum mér og setja sjálfan mig í fyrsta sæti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×