Innlent

Hækka þurfi veiði­gjald í skrefum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Heiðrún Lind Marteinsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Ívar Fannar

Breytingar á veiðigjaldi þurfa að eiga sér stað í skrefum og með samtali. Sjávarútvegurinn er tilbúinn í umræðu um hækkun þess með slíkum hætti segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Stórfelld hækkun gjaldsins í einu vetfangi sé hins vegar óboðleg og muni koma illa niður á greininni. Heiðrún Lind ræddi málið á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun en fyrstu umræðu um veiðigjaldafrumvarp atvinnuvegaráðherra lauk á aukaþingfundi í gær.

Hart hefur verið deilt um málið og þingið á enn eftir að greiða atkvæði um tillögu stjórnarandstöðunnar sem leggur til að málið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar fremur en atvinnuveganefndar þar sem um skattahækkun sé að ræða. Atkvæði verða greidd um tillöguna á næsta þingfundi á morgun, mánudag.

Heiðrún Lind gagnrýndi Hönnu Katrínu Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, og sagði hana hafa lokað á allt samtal við sjávarútveginn og kom einnig umdeildri auglýsingaherð samtakanna til varnar.

Ráðherra hafi ekki viljað hitta hagaðila

„Við urðum að ýfa fjaðrir til þess að fá umræðuna af stað, vegna þess að það átti bara að keyra þetta í gegn án umræðu. Ráðherra skoraði síðast á okkur á ársfundi SFS,“ segir Heiðrún.

„Þau segja ef þetta kemur svona illa við ykkur, þá er bara best að fyrirtækin opni sínar bækur, og sýni sveitarfélögum og öðrum, hvernig þetta hefur áhrif á rekstur þeirra.“

„Ég sagði bara okei við skulum fara í þessa vinnu. Nú erum við búin að fara í þessa vinnu með deloitte. Ég óskaði eftir fundi með ráðherra, og hún hefur ekki áhuga á að hitta okkur. Ef okkur hefði tekist að ná upp samtali, er ég viss um að við hefðum getað komið okkur niður á einhverja niðurstöðu.“

Sem væri hærri en hún er í dag? Þið mynduð sætta ykkur við það ef það væri gert með samtali?

„Við vitum að við erum með ríkisstjórn sem hefur sagt við ætlum að hækka veiðigjald. En við erum bara þeirrar skoðunar að það skipti máli hvernig það er gert.“

Nauðsynlegt að auka umræðuna með auglýsingum

Heiðrún segir að mikið hafi verið undir og þess vegna hafi verið farið af stað í auglýsingarherferð sem vakið hefur mikil viðbrögð.

„Það liggur mikið við og í ljósi þess að það eigi að fara svona hratt í gegnum málið töldum við fullt tilefni til þess að reyna auka umræðuna um málið á þessum skamma tíma.“

„Og það gerir maður nú kannski illa nema tala til almennings í formi auglýsinga.“

Heiðrún segir að orðræðan í kringum sjávarútvegin sé orðin óboðleg. Fólk sem hafi unnið að auglýsingunum eða birst í þeim hafi beinlínis orðið fyrir aðkasti.

„Ekki bara af einhverjum nettröllum, af fjölmiðlafólki og fyrrverandi forsetaframbjóðendum. Orðræðan er svo ógeðfelld að mér býður við því.“

„Af hverju getum við ekki bara tekið almennilega efnislega umræðu?“

Heiðrún segir svo að Kristrún Frostadóttir hafi verið mjög skýr í aðdraganda kosninga í nóvember. Hún hafi sagt að hún sæi fyrir sér breytingar á veiðigjaldi en vildi ekki gera það af offorsi.

Hún hafi séð fyrir sér tvöföldun á veiðigjaldi á næstu tíu árum. 

„Það voru hennar orð nákvæmlega orðrétt. Ekki bara einu sinni heldur um allt land þegar hún fór að hitta sjávarútvegskerfi.“

„Að skella algjörlega breyttri nálgun á veiðigjaldi í einu vetvangi fyrir áramót og láta það skella á af fullum þunga án þess að skeyta nokkru um það hver áhrifin verða, það er stórt hættumerki,“ segir Heiðrún.

Athugasemd ritstjórnar: Heiðrún Lind er stjórnarkona í Sýn.


Tengdar fréttir

„Þetta er salami-leiðin“

Formaður Framsóknarflokksins vill frekar að þrepaskiptur tekjuskattur verði lagður á sjávarútvegsfyrirtæki heldur en að sjá frumvarp atvinnuvegaráðherra um veiðigjöld verða að veruleika. Slíkt kerfi vill hann meina að sé líklegra til að tryggja að stærri og efnameiri fyrirtæki sem hagnast mest greiði meira af auðlindinni til samfélagsins en lítil og meðalstór fyrirtæki. Hann telur áform ríkisstjórnarinnar „andlandsbyggðarlega“ „salami-aðferð“ til að sækja tekjur af greininni.

Alþingi hafi mis­tekist að tryggja þjóðinni eðli­legan hlut

Þingmenn takast enn á um nýtt frumvarp um veiðigjöld á þingi. Þingmaður Samfylkingarinnar segir Alþingi hafa mistekist að tryggja þjóðinni sinn hlut en það verði nú lagað. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að ekki megi skemma verðmætasköpun með álögum.

Segir Jon Øigar­d­en Ingvar E þeirra Norðmanna

Fannar Sveinsson, leikstjóri, sjónvarpsmaður og hlaðvarpsstjóri, segir Jon Øigarden stórkostlegan leikara. Fannar leikstýrði umdeildri auglýsingu SFS sem farið hefur fyrir brjóstið á mörgum manninum. Fannar hefur ekki sett sig inn í pólitíkina sem hefur blossað upp í tengslum við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×