Innlent

Fimm­tán ára piltur ók undan lög­reglu um allt höfuð­borgar­svæðið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hér má sjá kort af vegalengdinni sem pilturinn ók eftir að lögregla kom auga á hann. Þess má geta að hún hafði áður fengið tilkynningu um akstur hans við Vífilstaði, sem er á miðju kortinu.
Hér má sjá kort af vegalengdinni sem pilturinn ók eftir að lögregla kom auga á hann. Þess má geta að hún hafði áður fengið tilkynningu um akstur hans við Vífilstaði, sem er á miðju kortinu. Já.is

Fimmtán ára ökumaður ók undan lögreglu með ofsafengnum hætti úr Hafnarfirði, í gegnum Garðabæ og Kópavog og endaði akstur sinn í Reykjavík. Hann var á bíl sem hann tók í óleyfi.

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að þeim hafi borist tilkynning um ofsaakstur á Reykjanesbraut þegar klukkan var alveg að ganga eitt í nótt.

Lögreglumenn hafi síðan orðið varir við hann við Fjarðartorg í Hafnarfirði, og honum gefið merki um að stöðva bílinn. Pilturinn hafi hins vegar aukið hraðan frekar en að nema staðar og ekið upp eftir Lækjargötu. Þaðan hafi hann farið á Hlíðartorg og þangað aftur á Reykjanesbrautina, að Kaplakrika og fram hjá honum í átt að IKEA.

„Hann ekur mjög greitt og það er eftirför og hann sinnir engum merkjum,“ segir Skúli.

Svo fór pilturinn upp á Breiðholtsbraut, inn í Seljahverfið þar sem hann fór um Jaðarsel, Seljabraut og Fljótasel, en á síðastnefnda staðnum nam hann staðar.

Skúli segir að þar hafi komið í ljós að ökumaðurinn væri alls gáður, en ansi ungur, á sextánda ári. Þess má geta að til þess að hefja æfingaakstur þarf einstaklingur að vera orðinn sextán ára gamall, og til þess að fá bílpróf sautján ára.

Einnig kom í ljós að hann hafði tekið bílinn í óleyfi. Forráðamaður hans hafi síðan komið og að sögn Skúla var drengurinn miður sín. Hann segir að málið verði tilkynnt til Barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×