Skoðun

Heimur skorts eða gnægða?

Þorvaldur Víðisson skrifar

Er heimurinn í eðli sínu staður skorts eða gnægða?

Stundum er líkt og mannlífið sé byggt upp á grundvelli þess skilnings að heimurinn sé í eðli sínu staður skorts á öllu því sem manneskjan þarf til að lifa hér í heiminum. Afleiðing þess sé sú að við þurfum að keppast við hvert annað og berjast um að öðlast það sem lífsnauðsynlegt er.

Þess vegna sé barátta í heiminum, þess vegna séu stríð.

Er þetta rétt?

Þar sem mannleg illska ræður för, þar er ekki von á góðu

Nei, þetta er ekki rétt. Heimurinn er í eðli sínu staður gnægða. Það eru gnægðir af öllu því sem maðurinn þarfnast til að lifa gæfusömu lífi. Gnægðirnar eru svo miklar að það er nóg fyrir alla.

Vitanlega geta verið aðstæður þar sem er skortur, þar sem eru stríð. Dæmin sanna það vissulega.

Á Gaza er skortur. Á Gaza er stríð.

Þar bíða hins vegar hjálpargögnin við landamærin, en hinir þurfandi fá ekki að taka á móti hjálpinni. Þar virðist það vera mannleg illska sem ræður för og þá er ekki von á góðu.

Það er ekkert nema illska sem ræður för þegar fólk er vísvitandi látið svelta. Það er ekkert nema illska sem ræður för þegar börn eru myrt.

Þessu mótmælir allt hugsandi, trúandi fólk.

Staður gnægða

Staðan á Gaza er ekki grundvölluð á því að heimurinn sé í eðli sínu staður skorts. Heimurinn er nefnilega staður gnægða, þar sem nóg er fyrir alla og rúmlega það. Manninum lánast hins vegar ekki alltaf, eins og dæmin sanna, að meðhöndla gæðin á réttlátan máta fyrir alla.

Hin kristna sýn á heiminn er sú að heimurinn sé góð sköpun kærleiksríks Guðs, sem elskar alla menn. Á þeim grunni eru allir menn elskaðir og jafnir. Á þeim grunni ber okkur að lifa. Á þeim grunni ber okkur að lifa, svo aðrir fái einnig að lifa.

Höfundur er sóknarprestur í Fossvogsprestakalli




Skoðun

Sjá meira


×