Innlent

Fólk látið vinna of hratt og fái ekki greitt fyrir alla vinnuna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ræstingafólki er oft úthlutaður allt of stuttur tími fyrir verkið sem það á að inna af hendi að sögn Eflingar.
Ræstingafólki er oft úthlutaður allt of stuttur tími fyrir verkið sem það á að inna af hendi að sögn Eflingar. Getty

Ræstingafólk, sem þrífur starfsstöðvar ríkisstofnana, fær ekki greitt fyrir alla þá vinnu sem það innir af hendi. Formaður Eflingar segir ræstingafyrirtæki úthluta fólkinu of litlum tíma fyrir hvert verk og ekki greiða meira ef verkið tekur lengri tíma.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í gær að félagið íhugi aðgerðir eftir að Fjársýsla ríkisins og Reykjavíkurborg endurnýjuðu samninga við ræstingafyrirtæki, sem virði ekki kjarasamninga. 

Sólveig og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, funduðu með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra í lok febrúar vegna málsins. Sólveig segist hafa gengið vongóð út af þeim fundi. 

„En svo því miður leið allt of langur tími á milli þess að sá fundur átti sér stað og í gær, þegar ég loksins fékk í gær,“ segir Sólveig Anna.

Útgjöld ríkisins til ræstinga aukist um 80% á fimm árum

Eftir að fréttin birtist hafði fulltrúi ríkisstjórnarinnar samband við Sólveigu og á nú að fara í vinnu til að koma til móts við kröfur Eflingar og SGS.

Útgjöld ríkisins til ræstinga hafa aukist um tæplega 80 prósent á fimm árum á meðan verðlag hefur hækkað um tæp 40 prósent. Árið 2019 voru heildarútgjöld ríkisins til ræstinga rúmir 1,5 milljarðar króna en í fyrra námu þau tæpum 3 milljörðum.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir samskipti stéttarfélagsins við ræstingarfyrirtækin ekki hafa verið góð.Vísir/Einar

Stærstu ræstingafyrirtækin sem starfa fyrir ríkið eru Dagar hf., en um helmingur þjónustunnar er keyptur þaðan, og svo Sólar ehf., IClean ehf. og Hreint ehf. en frá þeim kaupir ríkið um 14-28 prósent af ræstingaþjónustu.

„Það er stóri kerfislægi vandinn sem er til staðar inni í öllum ræstingabransanum á Íslandi. Það er verið að láta fólk vinna allt of hratt en það er ekki að fá greitt í samræmi við það,“ segir Sólveig. 

Fái þriðjung tímans sem verkið tekur

Dæmi eru um að fólk sé látið ræsta úthlutað svæði á þriðjungi þess tíma sem vinnan ætti að taka - ef verkið tekur lengri tíma en áætlað er fær viðkomandi ekki greitt fyrir umframtímann. Til dæmis hefur verið gerð krafa um að svæði skuli ræst á tveimur klukkustundum en það ætti að taka sex klukkutíma, samkvæmt uppmælingum ráðgjafafyrirtækis. Viðkomandi ræstitæknir færi aðeins greitt fyrir tveggja tíma vinnu, sama hvort það takist eða ekki.

„Hver einast uppmæling sem við höfum látið framkvæma hefur leitt í ljós að fólk er að fá úthlutað allt of skömmum tíma og er ekki að fá greidd laun í samræmi við þá vinnu sem það er að inna af hendi,“ segir Sólveig. 

Hún segir samskiptin við fyrirtækin ekki hafa verið góð.

„Það virðist vera sem svo að eigendur ræstingafyrirtækjanna séu einfaldlega búnir að ákveða að þeir geti komist upp með að framkvæma hlutina með þessum hætti. Það er kannski ekkert skrítið vegna þess að hið opinbera endurnýjar í sífellu samninga við þessi fyrirtæki sem komast svo upp með að halda vinnufyrirkomulaginu sem þessu.“

Ekki í boði að taka bara lægsta tilboðinu

Við þetta starfi mjög jaðarsett fólk.

„Könnun Vörðu leiddi í ljós að þetta eru 80 prósent konur, næstum 80 prósent innflytjendur og þetta er sá hópur á íslenskum vinnumarkaði sem býr við verstar aðstæður allra. Það eru lægstu launin, mesta áreitið, verstu framkomuna og þetta fólk lifir við verstu fátæktina,“ segir Sólveig. 

„Þau koma mjög illa út úr því þegar spurt er hvort þau geti veitt börnunum sínum eðlilega hluti eins og jólagjafir og afmælisgjafir.“

Efling fer fram á að ríkið breyti nálgun sinni að útboðum.

„Það er ekki lengur í boði fyrir hið opinbera að taka alltaf bara lægsta tilboðinu vegna þess að ef það er gert er full vitneskja að það er verið að fara að gera viðskipti við fyrirtæki sem er að borga léleg laun,“ segir Sólveig. 

„Það verður að tryggja að þriðji aðili framkvæmi þessar uppmælingar til þess að það sé alveg á hreinu hve langan tíma tekur að þrífa hvert svæði fyrir sig. Þá er hægt að skoða með einföldum hætti: Er verið að láta fólk vinna of hratt? Er eðlilegur vinnutaktur? Er fólk að fá greidd laun fyrir sína unnu vinnu?“


Tengdar fréttir

„Algjörlega brjálæðislegt að sjá“

Formaður Eflingar segir borgarstjóra vera með sexföld laun láglaunakvenna hjá borginni. Opinber yfirstétt virðist hafa meiri áhuga á að greiða sér „brjálæðislega há laun“ en að vinna að stöðugleika. Hið opinbera hafi tekið upp nýja launastefnu með kjarasamningi við kennara sem Efling ætli sér að miða við í viðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×