Upp­gjörið: Valur - Stjarnan 3-1 | Valur í úr­slit

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Valur er á leið í úrslit Mjólkurbikarsins.
Valur er á leið í úrslit Mjólkurbikarsins. Vísir/Diego

Valur tók á móti Stjörnunni í undanúrslitum Mjólkurbikars karla á Hlíðarenda. Bæði lið duttu út í undanúrslitum í fyrra og voru því bæði lið að vonast til þess að komast einu skrefi lengra í kvöld.

Fyrsta mark leiksins kom á 5. mínútu þegar Andri Rúnar Bjarnason skallaði boltann í mark Valsmanna eftir laglega sendingu frá Benedikti V. Warén.

Árni Snær Ólafsson markvörður Stjörnumanna fékk gult spjald á 16. mínútu leiksins fyrir að brjóta á Albin Skoglund. Aukaspyrna á hættulegum stað en Tryggvi Hrafn Haraldsson náði ekki að koma boltanum í netið.

Jónatan Ingi Jónsson jafnaði leikinn á 37. mínútu eftir mislukkaða sendingu Sindra Þórs Ingimarssonar úr vörninni. Stuðningsmenn og leikmenn Stjörnunnar vildu meina að boltinn hafi farið í höndina á Jónatani og ætlaði allt að sjóða upp úr eftir markið.

Valsmenn voru töluvert meira ógnandi í fyrri hálfleik en bæði lið komust þó í ágætis færi en náðu hvorug að nýta sér þau. 1-1 jafntefli því staðan út úr fyrri hálfleik.

Valsmenn komu út í seinni hálfleik með miklum krafti og skoruðu seinna mark sitt á 56. mínútu þegar Patrick Pedersen fær boltann við stöng Stjörnumanna og kom boltanum í netið.

Valsmenn voru þéttir til baka og áttu Stjörnumenn erfitt með að gera sér mat úr sóknum sínum.

Þriðja mark heimamanna kom á 75. mínútu þegar sláarskot frá Albin Skoglund fór aftur út í teig og þar var enginn annar en Patrick Petersen sem kom boltanum í netið.

3-1 sigur heimamanna niðurstaðan og eru Valsmenn á leiðinni í úrslit Mjólkurbikarsins, en þeir munu spila við annaðhvort Vestra eða Fram sem spila sinn leik 12. júlí næstkomandi.

Atvik leiksins

Þegar Árni Snær Ólafsson fékk gult spjald fyrir að brjóta á Albin Skoglund rétt fyrir utan teig. Stuðningsmenn Vals vildu sjá rautt spjald.

Örvar Eggertsson lenti svo í samstuði við Valsmenn eftir mark Jónatans en það er óljóst hvers vegna það var. Jóhann Ingi dómari leysti ágætlega úr því og fundaði með leikmönnum beggja liða.

Stjörnur og skúrkar

Patrick Pedersen var hetja Valsmanna í dag en sóknarlega voru heimamenn virkilega góðir.

Stemning og umgjörð

Alvöru sumarveður þetta kvöldið hér á Hlíðarenda. Mikið af áhorfendum og nóg af boltasækjurum, ég er búin að telja að minnsta kosti 10, en þess má geta að þegar ég var hér síðast á bikarleik hjá Valskonum var enginn boltasækjari.

Dómarar

Jóhann Ingi Jónsson var á flautunni, Ragnar Þór Bender og Gylfi Már Sigurðsson voru honum innan handar hér á hliðarlínunum. Nokkuð góð dómgæsla að mínu mati, leikurinn fékk að fljóta vel. Eina spurningarmerkið er hvort Árni Snær Ólafsson hefði átt að fá gult eða rautt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira