Körfubolti

Mike Brown sagður vera að taka við New York Knicks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Brown ræðir hér við Kobe Bryant á tíma sínum hjá Los Angeles Lakers.
Mike Brown ræðir hér við Kobe Bryant á tíma sínum hjá Los Angeles Lakers. Getty/ Stephen Dunn

NBA liðið New York Knicks er búið að finna næsta þjálfara samkvæmt fréttum frá Bandaríkjunum.

Mike Brown er sagður vera að taka við liðinu en Tom Thibodeau var óvænt rekinn eftir leiktíðina þrátt fyrir besta árangurinn í úrslitakeppninni í aldarfjórðung.

Leon Rose, forseti Knicks, hefur stýrt þjálfaraleitinni þennan mánuð sem er liðinn frá því að Thibodeau tók pokann sinn. Knicks bað meðal annars um leyfi til að ræða við fimm starfandi þjálfara í NBA deildinni.

Mike Brown vann fjóra meistaratitla sem aðstoðarmaður Steve Kerr hjá Golden State Warriors og Gregg Popovich hjá San Antionio Spurs. Brown var síðast þjálfari Sacramento Kings en var rekinn í desember.

Brown hefur tvisvar verið kosinn þjálfari ársins, fyrst sem þjálfari Cleveland Cavaliers 2009 og svo aftur sem þjálfari Sacramento Kings 2023.

Knicks tapaði á móti Indiana Pacers í úrslitum Austurdeildarinnar en hafði ekki komið svo langt síðan liðið fór í lokaúrslitin 1999. Síðast NBA titill félagsins kom árið 1973.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×