Upp­gjörið: Valur - Stjarnan 4-2 | Rhodes með þrennu í seinni hálf­leik

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Jordyn Rhodes skoraði þrennu í seinni hálfleik og er komin með sex mörk í Bestu deildinni í sumar.
Jordyn Rhodes skoraði þrennu í seinni hálfleik og er komin með sex mörk í Bestu deildinni í sumar. valur

Valur tók á móti Stjörnunni á N1 vellinum á Hlíðarenda í 13. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Valskonur unnu 4-2 í miklum markaleik og skoraði Jordyn Rhodes, leikmaður Vals þrennu.

Bæði lið byrjuðu leikinn vel en fljótlega tóku heimakonur öll völd á vellinum. Fyrsta mark leiksins kom á 24. mínútu þegar Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði eftir slæma hreinsun úr vörn gestanna.

Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir jafnaði leikinn á 40. mínútu með laglegum skalla. Úlfa Dís var svo aftur á ferðinni í uppbótatíma fyrri hálfleiks og skoraði stórkostlegt mark vinstra megin fyrir utan teig, góður snúningur á boltanum og fór hann stöngina inn. Staðan því 1-2 fyrir gestunum og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Valskonur komu að krafti út í seinni hálfleik þrátt fyrir að vera marki undir, og sköpuðu fjöldann allan af færum. Jordyn Rhodes bætti við jöfnunarmarki Vals þegar hún kom boltanum snyrtilega í markið fram hjá Veru Varis, markverði Stjörnunnar. Jordyn Rhodes var hvergi nærri hætt og bætti við tveimur mörkum og tryggði Val öruggan sigur.

Atvik leiksins

Annað markið hennar Úlfu Dísar var einstaklega glæsilegt. Hún fékk boltann eftir innkast og lék sér fram hjá varnarmönnum Vals og setti boltann snyrtilega stöngina inn.

Stjörnur og skúrkar

Jordyn Rhodes maður leiksins í kvöld með þrennu, en hún var fengin til Vals til þess að skora mörk. Það hefur ekki gengið nægilega vel það sem af er tímabili en ef marka má leikinn í kvöld, þá er hún vonandi að snúa því við.

Stemning og umgjörð

Í hreinskilni sagt, lítil stemning að mínu mati, umgjörðin á Hlíðarenda er fín en hún ætti að vera miklu betri.

Dómarar

Brynjar Þór Elvarsson, Smári Stefánsson og Eydís Ragna Einarsdóttir dæmdu leikinn í kvöld. Að mínu mati vel dæmdur leikur sem fékk að fljóta vel. Valskonur vildu fá víti á 16. mínútu er boltinn virðist hafa farið í höndina á Andreu Mist, erfitt að segja til um það og mögulegt að, Brynjar Þór, dómari leiksins, hafi misst af því.

Viðtöl

Jordyn Rhodes: Er að finna taktinn með liðinu

Eftir gagnrýni fyrr í sumar sýndi Jordyn Rhodes í kvöld hversu öflug hún er þegar hlutirnir smella.

„Það hefur tekið örlítið lengri tíma en ég bjóst við að aðlagast, finna taktinn með liðinu og mitt hlutverk. Ég er stolt af liðinu, við höfum ekki gefist upp. Eins og flestir vita hefur tímabilið ekki gengið eins og við höfðum vonað, en ég er stolt, því við höfum haldið áfram og nú virðast hlutirnir vera að smella,“ sagði Jordyn Rhodes, leikmaður Vals, ánægð eftir leikinn í kvöld.

„Þetta var frábær leikur hjá okkur, við fórum inn í hann með ákveðna leikáætlun og hún virkaði mjög vel. Þrátt fyrir að vera undir í hálfleik fannst mér við koma sterkar út í seinni hálfleik.“

Jordyn Rhodes skoraði þrjú mörk fyrir Val í seinni hálfleik og innsiglaði verðskuldaðan sigur Valskvenna.

„Mér finnst það sem af er tímabili að við höfum verið nálægt því að skila betri niðurstöðum, en það hefur vantað upp á loka sendinguna eða markið. Byrjunin á tímabilinu hefur gengið hægt hjá mér, en við höfum komið hvor annari í góðar stöður til að skora og ég er glöð að hafa náð að klára nokkur færi í dag.“

Úlfa Dís: Ég er leikmaður Stjörnunnar og ég verð að virða það

Úlfa Dís, leikmaður Stjörnunar, skoraði tvö glæsileg mörk í leiknum. Stjörnukonur fóru inn í hálfleik einu marki yfir en Valskonur slökktu á gestunum er þær skoruðu þrjú mörk í seinni hálfleik.

„Það er svekkjandi að tapa leiknum en við reyndum að fylgja leik planinu okkar, en í dag gekk það ekki upp og stundum er það bara þannig.“

Vísir greindi frá því fyrir tímabilið að Valur hefði gert 2,5 milljóna króna tilboð í Úlfu Dís og hefðu þannig gert hana að einni dýrustu knattspyrnukonu landsins.

„Ég er leikmaður Stjörnunnar og ég verð bara að virða það,“ sagði Úlfa svekkt eftir leikinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira