Veður

Hlýtt og rakt loft yfir landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu þrettán til nítján stig í dag.
Hiti á landinu verður á bilinu þrettán til nítján stig í dag. Vísir/Anton Brink

Hin djúpa lægð sem olli hvassri austanátt syðst á landinu í byrjun vikunnar er nú komin suðaustur að Skotlandi og eru vindar á landinu því hægir.

Á vef Veðurstofunnar segir að hlýtt og rakt loft sé yfir landinu og því sums staðar þoka eða súld við sjávarsíðuna, sem geti færst inn á land að næturlagi.

Líkur á skúrum síðdegis, jafnvel talsverðar dembur sunnantil á morgun.

Hiti verður á bilinu þrettán til nítján stig, hlýjast á Norðausturlandi í dag, en á Vesturlandi á morgun.

Um helgina er útlit fyrir norðlægar áttir og rigningu eða súld öðru hvoru. Lengst af þurrt suðvestanlands, en líkur á síðdegisskúrum þar. Áfram fremur milt í veðri.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Norðaustlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s. Skýjað að mestu á landinu og skúrir á víð og dreif. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Vesturlandi.

Á laugardag og sunnudag: Norðan og norðaustan 5-13 m/s og súld eða rigning með köflum. Bjartviðri sunnan heiða, en stöku skúrir síðdegis. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á mánudag og þriðjudag: Norðlæg átt og vætusamt, en þurrt að kalla suðvestanlands og milt veður.

Á miðvikudag: Snýst líklega í suðvestlæga átt með skúrum eða rigningu víða um land, en áfram milt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×