Erlent

Finnar ætla að hætta að flagga hakakrossinum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hakakrossinn var áberandi á skrúðgöngu flughersins í Jyväskylä árið 2024.
Hakakrossinn var áberandi á skrúðgöngu flughersins í Jyväskylä árið 2024. AP/Tommi Anttonen

Finnski flugherinn hefur ákveðið að hætta notkun hakakrossins á fánum herdeilda. Ofursti í flugher Kirjálalands segir það hafa verið gert til að forðast óþægilegar aðstæður í samvinnuverkefnum Atlantshafsbandalagsins sem Finnland gekk í árið 2023.

„Við hefðum getað haldið áfram með þennan fána, en það kemur stundum til óþægilegra aðstæðna þegar erlendir gestir koma í heimsókn. Það gæti verið betra að fylgja tíðarandanum,“ hefur finnska ríkisútvarpið eftir Tomi Böhm ofursta.

Í umfjöllun finnska ríkisútvarpsins er sérstaklega tekið fram að flugherinn hafi óttast viðbrögð bandarískra hermanna sem fyndist eflaust óþægilegt að taka þátt í æfingum eða aðgerðum við hlið manna merktra hakakrossinum.

Hakakrossarnir sem prýddu höfuðstöðvar flughersins hafa þegar verið fjarlægðir en merki einstakra deilda flughersins báru enn merkið. Það liggur ekki fyrir hvenær nýir fánar verða teknir í gagnið eða hvað kemur í stað hakakrossana en Tomi segist vænta þess að það verði á embættistíð sinni.

Finnski flugherinn tók upp notkun hakakrossins árið 1918, það er, talsvert fyrir uppgang nasista í Þýskalandi. Hann prýddi hverja einustu herflugvél fram til ársins 1945 en á sjötta áratugnum var hann settur á merki einstakra deilda. Ólöglegt er að flagga hakakrossinum eða bera hann á annan hátt víða um heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×