Skoðun

Bless bless jafn­launa­vottun

Sigríður Margrét Oddsdóttir skrifar

Skrifræði og regluverk atvinnulífsins er meira íþyngjandi á Íslandi en annars staðar, þetta sýna bæði greiningar frá OECD og þetta segja félagsmenn Samtaka atvinnulífsins. Óþarflega strangt regluverk veikir undirstöður atvinnulífs á breiðum grunni með því að draga úr virkni markaða og viðhalda háum viðskiptakostnaði.

Dómsmálaráðherra hefur nú lagt fram frumvarp er varðar skyldu fyrirtækja og stofnana til jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar. Frumvarpið felur í sér mikilvægar breytingar sem kallað hefur verið eftir af hálfu atvinnulífsins.

Í stað jafnlaunavottunar verður fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri skylt að skila inn til Jafnréttisstofu skýrslu sem upplýsir um starfaflokkun og launagreiningu á þriggja ára fresti. Ef kynbundinn launamunur mælist hjá fyrirtækjum þurfa þau jafnframt að skila inn tímasettri úrbótaáætlun.

Samtök atvinnulífsins hafa um árabil mælt með breytingum og fagna frumvarpi ráðherra. Jafnlaunavottun á að vera val en ekki skylda.

Ítrekað hefur komið fram í könnunum samtakanna á meðal félagsmanna neikvætt viðhorf til lögbundinnar jafnlaunavottunar og hár kostnaður vegna hennar. Miðað við þær kannanir má gera ráð fyrir því að kostnaður vegna jafnlaunavottunarinnar hafi hlaupið á bilinu 5-6 milljarðar, miðað við eigið mat fyrirtækjanna. Breytingin getur þýtt kostnaðarlækkun sem hleypur á bilinu 200 þúsund – 20 milljónir fyrir hvert fyrirtæki.

Undirstaða góðra lífskjara á Íslandi er útflutningsdrifinn hagvöxtur, alþjóðaviðskipti eru lífæð landsins. 42% félagsmanna Samtaka atvinnulífsins sem stunda útflutning telja innlent regluverk eina helstu hindrunina sem þau mæta við útflutning.

Á hringferð samtakanna í júní hittum við á fjórða hundrað fulltrúa fyrirtækja augliti til auglitis. Við héldum vinnufundi í níu bæjarfélögum þar sem rætt var um áskoranir, hvað stjórnvöld gætu gert og hvernig mætti auka útflutningstekjur Íslands. Það voru þrír þættir sem fyrirtæki landsins lögðu áherslu á gagnvart stjórnvöldum. Í fyrsta lagi ættu þau að móta stefnu til að auka fyrirsjáanleika, í öðru lagi lækka skatta og í þriðja lagi einfalda regluverk. Við fengum beint í æð skýrt ákall um að afnema bæri jafnlaunavottun sem lið í því að styðja við verðmætasköpun og aukin tækifæri.

Á nýju þingi er yfirlýst áhersla stjórnvalda verðmætasköpun og það fer vel á því að hefja það með raunverulegri sönnun þess fyrir atvinnulífið.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. 




Skoðun

Skoðun

Þúsundir kusu Sönnu

Anna Bentína Hermansen Einarsdóttir,Ármann Hákon Gunnarsson,Baldvin Björgvinsson,Brynja Guðnadóttir,Haraldur Ingi Haraldsson,Jón Hallur Haraldsson,Kolbrún Erna Pétursdóttir,Ólafur H. Ólafsson,Rakel Hildardóttir,Sigrún Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×