Veður

Gular veðurviðvaranir víða um land

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Einungis íbúar á Norðurlandi eystra sleppa við veðurviðvararnirnar.
Einungis íbúar á Norðurlandi eystra sleppa við veðurviðvararnirnar. Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular veðurviðvaranir víða um land. Þær taka gildi á föstudag og verða fram á laugardagsmorgun.

Fyrsta viðvörunin verður á Suðausturlandi og tekur gildi klukkan sex í fyrramálið. Þar er spáð talsverðri rigningu og ört hækkandi hitastigi. Asahláka og mikil hálka getur myndast þegar rignir á klakabunka eða þjappaðan snjó. Klukkan sjö fara veðurviðvaranir í gildi á Austfjörðum, þar sem búist er við álíka veðurskilyrðum, og á miðhálendinu þar sem tekur að hvessa.

Klukkan níu fer gul veðurviðvörun í gildi á Suðurlandi og búast má við hvassviðri þar á slóðum. Varasamt verður að ferðast um á ökutæki sem tekur á sig mikinn vind og við fjöll má búast við snörpum vindhviðum upp á þrjátíu metra á sekúndu. Einnig tekur að hvessa á Norðurlandi vestra, Breiðafirði og í Faxaflóa þegar líður að hádegi. Klukkan eitt tekur einnig viðvörun gildi á Vestfjörðum.

Þegar líður á daginn falla veðurviðvaranir á austurhluta landsins úr gildi. Á vestanverðu landinu falla síðustu viðvaranirnar úr gildi á laugardagsmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×