Innlent

Líkams­á­rásir og grunur um í­kveikju í kjallara

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Einn gisti fangageymslu í morgun.
Einn gisti fangageymslu í morgun. Vísir/Einar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók einn í gærkvöldi eða nótt sem grunaður er um líkamsárás og eignaspjöll. Lögregla var kölluð til þegar slagsmál brutust út á salerni á skemmtistað í miðborginni en við athugun reyndist handtekni eftirlýstur í tengslum við annað mál.

Þetta kemur fram í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar en þar greinir einnig frá tilkynningu um aðra líkamsárás sem sögð er í rannsókn.

Lögregla hafði einnig afskipti af einstakling sem er grunaður um að hafa verið að prófa hurðarhúna. Var hann látinn laus. Þá var tilkynnt um rúðubrot og innbrot í fyrirtæki og eru þau mál bæði í rannsókn.

Afskipti voru höfð af fjölda ökumanna á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars sjö sem voru ekki með ljósin í lagi. Þá voru skráningarmerki fjarlægð af sjö bifreiðum.

Lögreglan segir einnig í yfirlitinu að grunur leiki á íkveikju eftir að eldur kom upp í kjallararými á umráðasvæði lögreglustöðvar 2, sem er í Hafnarfirðinum. Slökkvistarf hafi gengið vel og reykræst í kjölfarið.

Ekki er farið nánar út málið í tilkynningu lögreglu, eins og hvar í Hafnarfirðinum eldurinn kom upp, en líklegt má telja að um sé að ræða sama eldsvoða og greint var frá í gærkvöldi á Völlunum, þar sem eldur blossaði upp í fjölbýli við Einivelli. Fjöldi slökkviliðsmanna var þá ræstur út en eldurinn reyndist þó ekki eins mikill og búist hafi verið við í fyrstu. 

Að sögn lögreglu er málið nú í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×