Skoðun

Skattfé nýtt í á­róður

Tómar Þór Þórðarson skrifar

Flokkur fólksins sem situr í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur gert það að listgrein að gagnrýna fjölmiðla með slíkum afleiðingum að styrkir til tveggja og stærstu öflugustu einkareknu fjölmiðla landsins voru skertir. Einmitt þeir fjölmiðlar sem veita ríkisstjórninni hvað mest aðhald.

Þessar árásir Flokks fólksins hafa hingað til einskorðast við raus þingmanna flokksins í ræðupúlti alþingis eða viðtölum, en um helgina kvað við nýjan tón þegar mennta- og barnamálaráðuneytið, hvar Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, fer með völdin, notaði vef stjórnarráðs Íslands í þeim tilgangi að sverta einkarekinn fjölmiðil.

Í tveimur löngum bloggfærslum á vef stjórnarráðsins var Morgunblaðið sakað um rangfærslur og lygar og ekki nóg með það, þá voru trúnaðarupplýsingar á milli blaðamanns og ráðuneytisins birtar orðréttar. Þó svo vinnubrögð ráðuneytisins dæmi sig sjálf er það skondna að trúnaðarbresturinn styrkir málstað fjölmiðilsins. Þá gat ráðuneytið ekki bent á eina rangfærslu í grein Morgunblaðsins heldur var bara ekki sú rannsókn notuð í umfjölluninni sem hentaði ráðherra og ráðuneytinu.

Til að bíta höfuðið svo af skömminni keypti mennta- og barnamálaráðuneytið svo auglýsingar á Facebook til að tryggja sem mesta útbreiðslu þessa áróðurs gegn fjölmiðli sem var að reyna að vinna vinnuna sína. Það er að sjálfsögðu ekki í lagi að skattgreiðendur borgi fyrir umkvartanir einstakra ráðherra í garð fjölmiðla. Það er í raun algjörlega ótækt.

Logi Einarsson, ráðherra fjölmiðla, hefur áður þurft að fordæma orð þingmanna Flokks fólksins í garð fjölmiðla og verður því í meira lagi áhugavert að sjá hver viðbrögð hans verða við þessu nýjasta útspili Flokks fólksins og ráðuneyti hans.

Í fyrsta lagi hvernig vef stjórnarráðsins er beitt í þessum pólitíska tilgangi og í annan stað að ráðuneyti kosti svona færslur með skattfé, sér í lagi vegna þess að hann leggur nú áherslu á að ráðuneytin auglýsi ekki erlendis og hefur bannað slíkt í sínu ráðuneyti.

Höfundur er aðstoðarmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi blaðamaður.




Skoðun

Skoðun

Skelin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×