Erlent
Tafir á Kastrup-flugvelli vegna fagfundar
Nokkrar tafir urðu á flugi frá Kastrup-flugvelli í morgun vegna fagfundar starfsfólks í öryggisgæslu á vellinum. Á meðan á fundinum stóð voru mun færri við vopnaleit á flugvellinum og því mynduðust langar raðir við vopnaeftirlitið.

Verstu flóð í A-Kína í þrjá áratugi
Flóðin sem nú belja um austurhluta Kína eru þau verstu í þrjá áratugi, að sögn þarlendra stjórnvalda. 55 hafa látið lífið og 12 annarra er saknað og að minnsta kosti 378 þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Orkuverð sé farið að hafa áhrif á hagvöxt
Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, telur að hækkandi orkuverð í landinu sé farið að hafa áhrif á hagvöxt. Greenspan kom fyrir Bandaríkjaþing í gær þar sem hann mat stöðuna í efnahagsmálum.

Flýðu heimili sín vegna aukinnar virkni í Merapi
Yfir fimmtán þúsund íbúar í þorpum í kringum eldfjallið Merapi í Indónesíu flýðu í morgun heimili sín vegna vaxandi eldvirkni í fjallinu. Merapi hefur látið á sér kræla undanfarnar vikur en í morgun spúði fjallið kröftuglega og mátti sjá voldugt öskuský standa upp úr gígnum.

Tugi hafa látist vegna flóða í Kína
Tugir manna hafa farist og hundruð þúsunda hafa misst heimili sín í flóðum í Kína undanfarna daga. Stormar hafa gengið yfir suðurhluta landsins síðastliðna viku með tilheyrandi flóðum og aurskriðum.

Einn lést og sex særðust á Gaza í dag
Palestínumaður var skotinn til bana og sex liggja sárir eftir skotbardaga þeirra við ísraelska hermenn á landamærum á Gaza-ströndinni í dag. Að sögn sjúkraflutningamanna sem hlúðu að mönnunum var sá sem lést lögreglumaður, sem og þrír hinna særðu, en hinir þrír voru óbreyttir borgarar.
Myndband af sprengingu í Manchester gert opinbert
Lögreglan í Manchesterborg í Englandi birti í dag myndband sem sýnir þegar sendibíll, fullur af sprengiefni, var sprengdur í loft upp fyrir utan matvöruverslun í miðborg Manchester fyrir tíu árum. Enginn lést í sprengingunni en 200 manns særðust.

Fimm konur og ungabarn særðust í átökum
Sagan endalausa af mannfalli í Írak heldur áfram. Í dag féllu fjórtán manns, þar af faðir og sonur hans, í skotbardaga norður af borginni Bakúba. Fimm konur og ungabarn eru sögð hafa særst í átökunum.

Neitar ásökunum um aðild að fangaflutningum
Forsætisráðherra Póllands neitaði í dag staðfastlega þeim ásökunum að pólsk stjórnvöld hafi komið að leynilegum fangaflutningum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Í nýrri skýrslu Evrópuráðsins eru fjórtán Evrópulönd, en Ísland er ekki þar á meðal, sögð tengjast flutningum á grunuðum hryðjuverkamönnum til landa þar sem pyntingar eru ekki ólöglegar.

Hlutabréf lækkuðu í Japan
Gengi hlutabréfa lækkaði nokkuð í kauphöllinni í Tókýó í Japan vegna ótta fjárfesta um yfirvofandi hækkun stýrivaxta í Bandaríkjunum. Gengi bréfanna hefur ekki verið lægra síðan í nóvember á síðasta ári.

Stórtónleikar í München vegna HM
Fótboltamenn og áhugamenn fengu fullt fangið af tónlist á upphitunartónleikum fyrir HM sem haldnir voru í München í gær. Placido Domingo söng fyrir gestina og hafði heilar þrjár hljómsveitir sér til halds og trausts.

Rusl eykst um 78 kíló á ári með tilkomu fríblaða
Rusl á dönskum heimilum mun aukast um 78 kíló á ári með tilkomu tveggja fríblaða í landinu. Þetta kemur fram í Jótlandspóstinum. Þar er fjallað um boðaða útgáfu 365 Medier á fríblaði og sams konar blað í útgáfu JP og Politiken.

Sögð hafa greitt fyrir fangaflutningum
Nokkur Evrópulönd eru sökuð um að hafa aðstoðað við leynilega fangaflutninga bandarísku leyniþjónustunnar CIA í nýrri skýrslu Evrópuráðsins. Fangaflutningarnir komust í hámæli á síðasta ári þegar greint var frá því að CIA hefði flogið með grunaða hryðjuverkamenn til landa þar sem pyntingar væru leyfilegar.

Bændur ruddust inn í brasilíska þingið
Hundruð brasilískra bænda sem ekki hafa landnæði réðust inn í brasilíska þingið í gær til að krefjast úrbóta í landbúnaðarkerfinu. Tuttugu slösuðust í klukkutíma langri baráttu bændanna við lögreglu og öryggisverði en bændurnir köstuðu steinum og öðru lauslegu og börðu mann og annan með prikum.

Ítalskir hermenn ekki kallaðir fyrr heim
Ítalir munu ekki kalla herlið sitt fyrr heim frá Írak en áður var áætlað. Romano Prodi, sem tók við forsætisráðherraembættinu á Ítalíu í síðasta mánuði, tilkynnti þetta á ítalska þinginu í dag.

Grunuð um skipulagningu hryðjuverka í Kanada
Sautján manns voru handteknir í Ontario-héraði í Kanada um helgina vegna gruns um aðild þeirra að skipulagningu á hryðjuverkum í landinu. Tólf hinna handteknu komu fyrir dómara í dag í borginni Brampton, vestur af Toronto, þar sem ákærurnar gegn þeim voru kunngjörðar.

Hamas-samtökin fá frest til fimmtudags
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, ákvað í dag að veita Hamas-samtökunum lengri frest til að taka afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslu um viðurkenningu á tilvist Ísraels.

Boðið í breska flugvelli
Stjórn breska fyrirtækisins BAA Group, sem rekur sjö flugvelli í Bretlandi, m.a. Heathrow og Gatwick auk þess sem fyrirtækið hefur starfsemi á nokkrum flugvöllum í öðrum löndum í Evrópu, hefur lýst yfir samþykki við yfirtökutilboð spænska fyrirtækisins Grupo Ferrovial í fyrirtækið. Tilboðið hljóðar upp á 950,25 pens á hlut eða 10,3 milljarða punda, jafnvirði 1.408 milljarða íslenskra króna.

Barist við skógarelda í Portúgal
Um tvö hundruð slökkviliðsmenn berjast nú við mikla skógarelda sem geisa í norðurhluta Portúgals. Stjórnvöld segja að eldhafið sé um þrjátíu kílómetra breitt og miklir sviptivindar og hátt hitastig geri að verkum að sífellt stærra landsvæði verði nú eldinum að bráð. Engum hefur þó orðið meint af né tjón orðið á mannvirkjum, enn sem komið er í það minnsta. Eldurinn kviknaði í Barcelos í Norður-Portúgal á sunnudaginn, rúmlega 350 kílómetra norður af höfuðborginni, Lissabon. Á síðasta ári beið tuttugu og einn bana í Portúgal af völdum skógarelda og um 800 þúsund ekrur af skóglendi eyðilögðust.

Hagnaður Ryanair umfram væntingar
Hagnaður írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair nam 302 milljónum evra á síðasta rekstrarári, sem lauk í mars, og er það 12 prósentum meiri hagnaður en árið á undan. Þá er hagnaðurinn sjö milljónum evrum meiri en stjórn flugfélagsins hafði búist við.

Tilboð sem á að fá Írana til að hætta auðgun úrans
Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, er kominn til Írans með tilboð frá vesturlöndum, sem á að fá Írana til að hætta við auðgun úrans. Tilboðið sem Solana hefur í farteskinu, hefur ekki verið gert opinbert. Frumdrög að því benda hinsvegar til þess að ef Íranar fallist á að hætta auðgun úrans muni þeir fá aðstoð við að reisa kjarnorkuver, þeim verði tryggt eldsneyti og þeir fái að kaupa evrópskar Airbus flugvélar. Bandaríkin bættu í pottinn með því að aflétta ýmsum viðskiptahömlum af Íran, meðal annars heimila þeim að kaupa Boeing farþegaþotur og varahluti í vélar af þeirri tegund, sem þeir eiga þegar. Í tilboðinu er hinsvegar einnig að finna hótun um að ef Íranar haldi áfram að auðga úran, muni öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkja refsiaðgerðir. Viðbrögð Írana hafa verið misvísandi. Æðsti leiðtogi þeirra, klerkurinn Ali Khameini hefur hótað að trufla olíuframleiðslu, ef Íran verður beitt viðskiptaþvingunum. Mahmóud Ama-dine-jad, forseti landsins hefur hinsvegar fagnað komu Solanas og lofar því að tilboð vesturlanda verði skoðað vandlega.

Næstu ár gætu orðið enn mannskæðari
Meira en eitt hundrað milljónir gætu látist af völdum alnæmis í Afríku einni saman á næstu tuttugu og fimm árum, gangi svartsýnustu spádómar Sameinuðu Þjóðanna eftir. Nú eru liðin tuttugu og fimm ár síðan alnæmi greindist fyrst og síðan þá hafa tuttugu og fimm milljónir látið lífið af völdum sjúkdómsins í heiminum. Margt bendir til að næstu tuttugu og fimm ár gætu orðið enn mannskæðari. Miðað við mannfjöldaspár og útbreiðslu sjúkdómsins gætu meira en þrjátíu milljónir fallið á Indlandi og meira en eitt hundrað milljónir í Afríku einni.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort viðurkenna eigi Ísrael
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur ákveðið að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Palestínumenn eigi að viðurkenna Ísraelsríki.

Nýjar fjöldagrafir fundnar í Írak
Átján nýjar fjöldagrafir, frá stjórnartíð Saddams Hussein, hafa fundist í Írak. Líklegt er talið að í þeim séu fórnarlömb sjíta-múslima sem Saddam lét myrða. Grafirnar fundust í eyðimörkinni í suðvesturhluta landsins. Talið er að þær séu frá því sjíamúslimar gerðu uppreisn gegn Saddam árið 1991. Í annarri gröfinni hafa fundist líkamsleifar tuttugu og átta karlmanna á aldrinum 20 til 35 ára. Hendur þeirra hafa verið bundnar fyrir aftan bak, og það hefur verið bundið fyrir augu þeirra, áður en þeir voru skotnir. Réttarlæknar sem eru að grafa upp beinagrindurnar hafa einnig fundið mikið magn af skothyklkjum og byssukúlum. Aðeins er búið að grafa upp eina af fjöldagröfunum átján, enn sem komið er. Hinar verða opnaðar ein af annarri, á næstu misserum. Talið er að yfir eitthundrað og áttatíu þúsund shía múslimar hafi verið myrtir árið 1991, þegar þeir gerðu uppreisn gegn forsetanum, í kjölfar fyrra persaflóastríðsins.
Pólskir læknar ráðnir til starfa í Danmörku
Á meðan danskir hjúkrunarfræðingar eru ráðnir á Landspítala-háskólasjúkrahús, þá eru pólskir læknar ráðnir til starfa í Danmörku. Á fréttavef Jyllands Posten er greint frá að pólskir læknar hafi nú verið ráðnir á einkastofur á Norður Jótlandi en í fyrstu voru þeir einkum ráðnir á ríkisreknu sjúkrahúsin. Pólsku læknarnir eru ráðnir samkvæmt dönskum samningum en þeim er frjálst að segja upp samningum hvenær sem er.

Danir vilja kalla danska hermenn heim frá Írak
Um helmingur Dana vill kalla heim danskar hersveitir frá Írak samkvæmt nýlegri skoðanna könnun þar í landi. Politiken greinir frá því að stuðningur Dana við þátttöku í Íraksstríðinu sé hverfandi en árið 2004 voru um 72% Dana fylgjandi því að senda danska hermenn til Írak en einungis um 40% nú. Samkvæmt varnarmálaráðherra Danmerkur, Søren Gade, eru þó litlar líkur á að danskir hermenn verði kallaði heim í nánustu framtíð.

Serbía lýsir brátt fyrir sjálfstæði
Júgóslavía heyrir sögunni til í næstu viku þegar Serbía, síðast lýðveldanna, lýsir opinberlega yfir sjálfstæði. Aðeins Svartfjallaland og Serbía eru eftir af því lýðveldum sem Júgóslavía eitt sinn var en landið samanstóð af Slóveníu, Bosníu-Herzegovinu, Króatíu, Makedóníu, Albaníu, Svartfjallalandi og Serbíu.
Tólf manns slösuðust í sprengingu í Tyrklandi
Alls slösuðust tólf manns þegar sprengja sprakk við verslunarmiðstöð í borginni Mersin um 450 kílómetra suður af höfuðborginni Ankara í morgun. Enginn hefur lýst ódæðinu á hendur sér en kúrdískir hryðjuverkamenn hafa áður notað svipaðar aðferðir. Enginn þeirra slösuðu eru í lífshættu. Þá brotnuðu rúður í nokkrum verslunum í verslunarmiðstöðinni.
Maður særðist í aðgerðum hryðjuverkalögreglu
Maður særðist, þó ekki alvarlega, þegar hryðjuverkalögreglan í Bretlandi réðst inn í hús hans í Lundúnum í gær og skaut hann. Talið var að í húsinu væru búin til efnavopn. Yfir 250 lögreglumenn tóku þátt í árásinni og er aðgerð hryðjuverkalögreglunnar þar í landi ein sú umfangsmesta í langan tíma. Maðurinn sem skotinn var er 23 ára. Hann er nú á sjúkrahúsi og á batavegi. Grunsemdir lögreglunnar virtust þó ekki á rökum reistar því engin ummerki um vopnagerð, funndust í húsinu.

Lögleyfing heróíns gefur góða raun í Sviss
Nýjum sprautufíklum í Zürich hefur snarfækkað eftir að yfirvöld fóru sjálf að láta heróínneytendum efnið í té og útvega þeim aðstöðu til að sprauta sig.