Sport

Divac formlega hættur

Serbneski miðherjinn Vlade Divac hjá Los Angeles Lakers tilkynnti í gærkvöldi formlega að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna. Hann mun þó ekki hætta afskiptum sínum af körfuknattleik, því hann hefur verið ráðinn útsendari Lakers í heimalandi sínu. Divac átti eitt ár eftir af samningi sínum við Lakers, en komst að samkomulagi við félagið um að það keypti hann út úr honum fyrir tvær milljónir dollara. "Ég vildi ólmur halda áfram, en það hefði ekki verið gaman að halda áfram svona meiddur og þegar er ekki gaman, langar mig ekki að spila," sagði Divac. Vlade Divac átti stóran þátt í að koma evrópskum leikmönnum á kortið í NBA deildinni á sínum tíma og hefur átt hvað farsælastan feril allra Evrópubúa í deildinni. Hann hóf að leika með Los Angeles Lakers árið 1989 og var þar í sjö ár, tvö ár hjá Charlotte og í sex ár hjá Sacramento Kings. Síðustu mánuðina á ferlinum var hann svo hjá gamla liði sínu Lakers, en gat lítið haft sig í frammi vegna meiðsla. Divac skoraði að meðaltali tæp 12 stig að meðaltali á ferlinum og hirti 8,3 fráköst. Aðeins tveir aðrir leikmenn en hann í sögu NBA deildarinnar hafa náð að skora 13000 stig, hirða 9000 fráköst, gefa 3000 stoðsendingar og verja 1500 skot á ferlinum, en það eru þeir Hakeem Olajuwon og Kareem Abdul-Jabbar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×