Norski þingmaðurinn Dagfinn Høybraten var í gær kjörinn forseti Norðurlandaráðs.
Hann segist meðal annars vilja beina sjónum norræns samstarfs að málefnum norðurslóða, bæði gagnvart Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og Rússlandi. Noregur tekur á næsta ári einnig við formennsku í Norðurskautsráðinu – reyndar munu Norðurlönd gegna þeirri formennsku hvert á eftir öðru næstu sex ár – og það vill Høybraten nýta til að hámarka árangur í þessum málaflokki.
Høybraten er formaður Kristilega þjóðarflokksins í Noregi og var félagsmálaráðherra í síðustu stjórn Kjell-Magne Bondevik. Hann er mikill áhugamaður um hestamennsku og á þrjá íslenska hesta.