„Stór hluti af lausninni á Íraksvandanum liggur ekki innan landamæra Íraks heldur utan þeirra,“ sagði Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í ræðu um utanríkismál sem hann flutti á mánudagskvöld.
Hann kynnti síðan metnaðarfull áform stjórnar sinnar varðandi Mið-Austurlönd, en tók jafnframt fram að það væri misskilningur að þau áform snerust um að fá ráðamenn í Íran og Sýrlandi til þess að taka upp breytta stefnu. „Þvert á móti, við ættum að byrja á Ísrael/Palestínu. Það er kjarninn. Síðan ættum við að ná framförum í Líbanon,“ og þannig koll af kolli.
„Það sem er að gerast í Mið-Austurlöndum núna er ekki flókið. Það er einfalt,“ sagði Blair og fór síðan að tala um Íran, sagðist skilja vel að Íranar séu í raun og sann dauðhræddir við Bandaríkin, en sá ótti sé með öllu ástæðulaus. Bandaríkin ætli sér ekkert að ráðast með hervaldi á Íran.
Vandinn sem stafi af Írönum sé hins vegar sá að þeir „nota þrýstipunkta í þessum heimshluta til að leggja stein í götu okkar. Þeir hjálpa öfgafyllstu öflunum í Hamas í Palestínu, Hezbollah í Líbanon og sjía-herflokkum í Írak“.
Bretar verði því að vinna með Bandaríkjamönnum og öðrum Vesturlöndum að því að létta þrýstingnum af þessum stöðum, hverjum á fætur öðrum. Það sé eina leiðin og það muni taka langan tíma að fara þá leið, heila kynslóð.