Bílasalar sem kunna ekki að keyra yrðu líklega ekki eftirsóttir hér á landi. Í Saudi-Arabíu er hinsvegar talsvert af þeim. Þessir bílasalar eru konur. Og þær selja bílana konum sem ekki mega keyra þá.
Í Saudi-Arabíu er aðskilnaður kynjanna slíkur að þau eru ekki saman í skóla, þau sitja ekki saman á veitingastöðum og þau fara ekki saman í banka.
Þetta nær jafnvel til hámenntaðra einstaklinga; á læknaráðstefnu nýlega neitaði einn karl-læknirinn að flytja erindi sitt nema kvenlæknar sem sátu ráðstefnuna færu út. Konurnar fóru.
Ástæðan fyrir því að kvenkyns bílasalar þrífast í Saudi-Arabíu er sú að margar fjölskyldur eru svo vel stæðar að þær hafa efni á að hafa einkabílstjóra. Konur geta því leitað til kvenna um ráð um hvaða bíll sé hentugastur og þægilegastur fyrir þær.