Demókratar, sem nú eru í meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings í fyrsta sinn í tólf ár, leggjast eindregið gegn því að fjölgað verði í herliði Bandaríkjanna í Írak eins og búist er við að George Bush forseti leggi til í næstu viku.
Þetta kemur fram í bréfi þeirra Nancy Pelosi og Harry Reid, leiðtoga demókrata í fulltrúa- og öldungadeild þingsins, sem þau sendu forsetanum í gær. Þá tilkynnti Robert Gates landvarnaráðherra í gær um meiri háttar breytingar á stjórnendum hersins í Bandaríkjunum en nokkrum klukkustundum áður hafði Bush tilnefnt John Negroponte í embætti aðstoðarutanríkisráðherra. Negroponte gegndi áður starfi yfirmanns leyniþjónustustofnana landsins en við stöðu hans þar tekur Mike McConnell.