Hugo Chavez var í dag settur í embætti forseta Venesúela til næstu sex ára. Hann vann stórsigur í kosningum í fyrra og hefur á þeim grundvelli ákveðið að ýta úr vör umfangsmiklum þjóðvæðingarverkefnum. Chavez hafði þegar sagt að hann ætlaði sér að þjóðvæða fjögur olíuverkefni sem og fjarskiptafyrirtæki en bætti svo við í ræðu eftir athöfnina í dag að hann hygðist þjóðvæða jarðgasverkefni líka.
Chavez setti embættisborðann sinn yfir vinstri öxlina til þess að leggja áherslu á það hvað stefnu hann aðhylltist í stjórnmálum. Hann kallaði Jesú líka einn mesta jafnaðarmann sögunnar þegar hann var að sverja embættiseiðinn. Að lokum bætti hann því við að hann ætlaði sér að fjarlægja takmarkanir á fjölda kjörtímabila sem forseti getur setið.