Fylkir vann mjög mikilvægan en jafnframt sannfærandi sigur á Akureyri í DHL-deild karla í handbolta í Árbænum í dag, 29-23. Fylkismenn hafa endurheimt Guðlaug Arnarson, Heimi Örn Árnason og Agnar Jón Arnarsson, og munaði miklu um þá í leiknum í dag.
Agnar Jón skoraði sjö mörk fyrir Fylki en Brynjar Hreinsson kom næstur með fimm mörk. Munurinn á liðunum lá fyrst og fremst í varnarleiknum, þar sem þeir Guðlaugur og Heimir Örn spiluðu stórt hlutverk hjá Fylki.
Með sigrinum eru Fylkismenn komnir með níu stig í deildinni, en liðið er þó enn í fallsæti. Fram og Haukar eru í sætunum fyrir ofan með 11 stig. Deildin er hins vegar gríðarlega jöfn og má lítið út af bregða til að staðan breytist mikið. Þannig er Akureyri áfram í 3. sæti þrátt fyrir tapið með 12 stig.