Fjárglæframaðurinn Nick Leeson, sem setti breska Barings bankann á hausinn fyrir nokkrum árum, er byrjaður að fjárfesta á ný. Í þetta sinn notar hann þó bara eigin peninga.
Leeson, sem nú gegnir starfi fjármálastjóra írska knattspyrnuliðsins Galway United, sat í þrjú ár í fangelsi í Singapore vegna fjárglæfra sinna en hann tapaði gríðarháum fjárhæðum á því að kaupa og selja gjaldeyri.
Leeson segist þó enn hafa áhuga á gjaldeyrismörkuðunum. Hann neitar því þó að hann ætli sér að fara að starfa fyrir fjárfestingarfyrirtæki á ný. Leeson má sem stendur ekki vinna fyrir fjármálafyrirtæki á ný án þess að fá sérstakt leyfi frá yfirvöldum til þess.

