Tvær bílsprengjur urðu fimmtíu manns að bana í Bagdad í dag og særðu 135. Sprengjunum var beint að fólki sem var að fagna sigri írakska landsliðsins í knattspyrnu í undanúrslitum Asíukeppninnar, en liðið vann Suður-Kóreu í vítaspyrnukeppni.
Mikill fögnuður braust út í Írak eftir sigur landsliðsins, konur fleygðu meðal annars sætindum yfir dansandi fólk á götum úti, fjölskyldur fórnuðu sauðfé og búðareigendur gáfu ís og ávaxtasafa.
Sprengjurnar urðu harkaleg áminning um sértrúarátökin á milli sjíta múslíma og súnní araba sem hafa orðið tugum þúsunda að bana.