Hópur Palestínumanna lagði á ráðin um að myrða Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, þegar hann fór í bílalest til þess að hitta Mahmoud Abbas forseta Palestínumanna í Jeríkó í ágúst síðastliðnum.
Ísraelska leyniþjónustan komst að þessu ráðabruggi. Hún hafði samband við öryggisþjónustu Palestínumanna, sem handtók þrjá menn til yfirheyrslu.
Ísraelsku ríkisstjórninni var ekki sagt frá þessu fyrr en í dag. Ehud Olmert sagðist vera reiður yfir þessu, en að það breytti engu um samband sitt við Mahmoud Abbas. Hann léti þetta ekki stöðva viðræður sínar við Palestínumenn.