Rússar hafa lofað að draga herlið sitt frá Georgíu innan mánaðar. Þetta var tilkynnt eftir að Nicolaz Sarkozy forseti Frakklands átti í dag fund með Dmitry Medvedev, forseta Rússlands.
Í vopnahléssáttmála sem þeir undirrituðu lofuðu Rússar að flytja allt herlið sitt frá Georgíu. Þess í stað tóku þeir sér einhliða það sem þeir kölluðu öryggissvæði inni í Georgíu.
Þar stjórna þeir allri umferð. Þeir hafa einnig hermenn í hafnarborginni Poti, og segjast þar skoða alla þá skipsfarma sem þeir kæra sig um.
Frakkland er í forsæti Evrópusambandsins þessa dagana og í för með Sarkozy voru bæði Jose Manuel Barroso forseti sambandsins og Javier Solana utanríkismálastjóri.